Hví dó Kristur á krossinum?

Vegna þess hve síðasta færsla var hundlöng, þá ætla ég að vera mjög stuttorður í dag.

Löngum hef ég velt því fyrir mér hví Kristur dó á krossinum. Hin hefðbundna skýring er auðvitað sú að dauðarefsingin, sem við höfðum unnið okkur til með syndum okkar, hafi komið niður á Honum sem var sjálfur án sektar. 

Þessi skýring stenst naumast rökræna gagnrýni. Er þetta ekki svolítið eins og ef ég færi á Litla-Hraun og byði mig saklaus fram til að afplána refsingu fanganna, sem þar dúsa, í þeirra stað? Hvers konar réttarkerfi væri það sem leyfði slíkt?

Djúpt innra með mér skynja ég að til er eitthvert miklu vitrænna og meira fullnægjandi svar við spurningunni um hvers vegna Kristur lést á krossinum - ég get bara ekki fundið það!

Því hvet ég allt það kristna fólk sem þessar línur les til að leggja orð í belg og reifa hugrenningar sínar um ástæðu krossdauða Frelsarans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einfalt fyrir mér. Þetta gekk eftir af því að hann ögraði yfirvaldinu, svo hann mætti uppfylla spádóma, sem ekki höfðu ræst. Það er því spurning hvort spádómar í þessu samhengi séu spádómar eða uppskriftir að atburðum.  Mörg dæmi eru um þetta. Hvort var á undan hænan eða eggið.  Ég skil vel að þú skiljir ekki þær ályktanir sem kirkjuleg stofnun hefur gert út frá þessu. Ég fæ engann botn í það heldur, frekar en það að láta fermingarbörn éta hold og blóð krists né hvað þá heldur hinn þríeina guð.  Guð, sem er þrennt en samt eitt.  Þetta trúardogma er rakin þvæla frá upphafi til enda.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.12.2007 kl. 16:51

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kæmi mér ekki á óvart að þú fáir hér Guðfræðilega loftfimleika til skýringar þessu.  Engum hefur tekist að ljúga sig út úr þessu á ásættanlegan máta en það er alltaf fróðlegt að sjá manískar orðræður fólks, sem telst þó vera með réttu ráði.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.12.2007 kl. 16:55

3 Smámynd: Þarfagreinir

Ég hef alltaf átt erfitt með þetta atriði, að nauðsynlegt hafi verið að fórna Jesúsi svo hann mætti taka á sig erfðasyndina. Ef við gefum okkur að svo hafi ekki verið, þá á ég erfitt með að sjá annan djúpan tilgang með dauða hans, nema þá helst að hann hefur þá verið mjög hugrakkur píslarvottur sem dó fyrir það sem hann trúði á og boðaði.

Þarfagreinir, 13.12.2007 kl. 17:12

4 Smámynd: Swami Karunananda

Hið næsta sem ég kemst skynsamlegum skilningi á píslarsögu Krists er á þá leið að hún sé allegóría fyrir þær ægilegu andlegu þjáningar sem við öll verðum að ganga í gegnum til að öðlast ´Kristsvitund´(þ.e. guðdómlega kennd einingar og samúðar með öllu sem er). ´Að drekka syndabikar mannkynsins´ er þannig tákn fyrir það að horfast óveigranlega í augu við hina skelfilegu illsku sem býr í mannshjartanu, sem og kvalirnar og sorgirnar sem af þeirri illsku leiða. En slíkur dagljós skilningur á hinu illa er fyrsta skrefið í þá átt að vinna bug á því; maður verður að þekkja óvininn áður en lagt er til atlögu gegn honum.

Kristur er þannig tákngervingur okkar allra. Kvalir hans og sorgir eru okkar kvalir og sorgir, en á allt annan hátt en þann fáránlega veg sem kirkjan hefur matreitt ofan í okkur sl. tvö árþúsund, með þá absúrdu kenningu í fararbroddi að Kristur hafi dáið til að forða okkur undan þeim eilífa dauða sem ´erfðasyndin´ hefur í för með sér.

Swami Karunananda, 18.12.2007 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband