Sunna og þeir sem á Hana kunna

´Reynslan er mælikvarði allra hluta´. Kennisetning sú er upphaf og útgangspunktur allrar heimspeki sem verðskuldar að kallast því heiti.

Húmanísk rökhyggja nútímans vill gjarnan eigna sér einni fylgispekt við þessa frumsetningu. Það er fimbulfáránleiki. Sannleikurinn er sá að andlegheitaheimspeki á borð við Búddisma og Jóga halda (a.m.k. í sínum hreinræktaðri afbrigðum) jafn mikilli tryggð við téð axíóm og nokkurn tíma hin fyrrnefnda húmaníska rökhyggja. Munurinn er einvörðungu sá að Búddismi, Jóga og aðrar andlegar heimspekistefnur telja hið mögulega svið mannlegrar reynslu óendanlega miklu víðfeðmara en húmaníska rökhyggjan álítur yfirleitt; mannleg upplifum geti hafið sig upp í óendanlegar hæðir og breiddir - já, umfaðmað það sem trúarbrögðin kalla ´Guðdóminn´ sjálfan; orðið ´allt en þó ekkert´- þ.e. eitt með öllum alheiminum en þó utan alls alheimsins.

Staðhæfingar andlegheitaheimspekinnar um guðdómlegt pótentíal mannlegrar reynslu eru yfirleitt flokkaðar og afgreiddar sem ´dulræna´ eða ´mystík´ af áhangendum hinnar húmanísku skynsemishyggju. Þó er ekkert ´dulrænt´ við nefnda guðdómsreynslu annað en það, að hún er dulin yfirborðsheimsku fjöldans!

(Smávegis útúrdúr): Ef þið, lesendur góðir, efist um að til sé nokkuð utan eða ofan við það svið sem vísindin hafa (af helberri vilkvæmni) afmarkað sem veruleika, þá skuluð þið íhuga fyrirbæri það er ´list´ nefnist. - Hvað í ósköpunum er listin? Er hægt að mæla hana, vega hana, skipa henni undir kerfi eðlis- eða efnafræði, smætta hana í hugtök raunvísindanna? Svo virðist alls ekki vera. Ef skilgreina á ´listina´ þá getum við ekki gert betur en að aula út úr okkur einhverri klifun (tátólógíu) á borð við: ´List er það sem skynjað er sem list´. - En þrátt fyrir öll þessi skilgreiningarvandkvæði þá fer ekkert á milli mála þegar vér erum í námunda mikillar listar! Þannig virðist listin óræk sönnun þess að til sé veruleikasvið utan og ofan við umfang efnisvísindanna. - En þótt listin geti verið yndisleg og undursamleg þá eru (segir andlegheitaheimspekin) til upplifanir sem eru svo háleitar og dásamlegar að jafnvel súblímasta list er eins og sorp í samanburðinum! (Útúrdúr lokið).

En þá er ekki nema von að lesendur spyrji: hvaða forsendur hefur höfundur hugleiðinga þessara til að aðhyllast þá skoðun að ofangreindar ´guðdómsupplifanir´ séu veruleiki? Er eitthvað í reynslu höfundar sem skýtur stoðum undir það?

Og ef ég á að vera fyllilega sannsögull þá verð ég að viðurkenna að ég hef ekki persónulega upplifað þennan hátind hinnar mannlegu reynslu sem andlegheitaheimspekin álítur hápunkt og konsúmmeringu þroskaferils manneskunnar. En nógu ríka og djúpa andlega reynslu hef ég þó öðlast, nógu stór glufa hefur þó opnast mér á hurð hins myrka hellis efnisins til að veita mér óburtrækt hugboð um hina andlegu sól sem skín og leiftrar í allri sinni dýrð þar fyrir utan. - Og þar fyrir utan hef ég vitnisburð ´dulspekinga´ allra landa á öllum tímum, sem er hvarvetna og hvenærvetna sláandi líkur, jafnvel í tilfellum þar sem útilokað er að um áhrif frá einum spekingi á annan sé að ræða. Ef við trúum því að fólk sé upp til hópa heiðarlegt og sannorða þá virðist ósanngjarnt og heimskulegt að afneita staðhæfingum andlegheitaheimspekinnar einungis vegna þess að vér höfum ekki upplifað sjálf þá guðdómsupplifun sem nefnd spíritúel fílósófía boðar.

Og þar eru fleiri fletir á þessu máli. Allar manneskjur trúa á eitthvað sem liggur utan við svið þeirrar persónulegu reynslu. Hversu margt fólk hefur t.d. séð atóm eða rafeind? Hversu margar mannverur hafa pírt í smásjá til að sjá gerla? Hversu margar manneskjur hafa persónulega reynslu af því að Jörðin snúist kringum Sólina en ekki öfugt?-  Er ekki sú staðreynd, að fólk hélt í árþúsundir að þessum gangi himintunglanna væri á öndverðan veg farið, nægileg sönnun þess að hin vísindalega þekking brýtur hvað þetta varðar í bága við það sem almennri reynslu og skynjun mannkynsins virðist vera sannleikur?

Og úr því að við teljum óhætt að treysta orðum vísindanna fyrir ótal hlutum sem vér höfum enga persónulega erfaringu af, og eru jafnvel á skjön við þá erfaringu, þá leyfi ég mér að staðhæfa að andlegheitaheimspekinni (andlegheitavísindunum freistast ég til að segja) er fyllilega trúandi þegar hún segir að sú samábyrgð skammsýninnar og fáviskunnar sem ´almenn, rökræn, veraldleg heimsskoðun´ nefnist, sé ekki annað en blinda moldvörpunnar samanborið við sýnina af hinni eilífu andlegu Sól sem ein er sannleikurinn, vegurinn og lífið.

P.s. Þó skyldum við ekki afskrifa hina ´almennu, rökrænu, veraldlegu heimsskoðun´, öðru nafni hina margtéðu húmanísku rökhyggju, fyrir þær sakir einar að hún fari gersamlega á mis við hinn sanna, guðdómlega kjarna veraldarinnar. Fyrstu fálmandi skref smábarnsins eru aumkunarverð og grátbrosleg miðað við hinn áreynslulausa og örugga gang fullorðins fólks - en þó er nefnt byrjunarskjögur barnsins óhjákvæmilegur og óámisviðfaranlegur grunnur að gagnvissu hinnar fullorðnu mannveru. Og þannig ber okkur að líta á hina húmanísku, veraldarsinnuðu skynsemishyggju - hún er nauðsynlegt og óviðveigrandi byrjunarskref í átt til þekkingar á hinum sanna veruleika hlutanna. Andi hennar er, líkt og segir í upphafi pistils þessa, í fullu samræmi við þau frumrænu þekkingarfræðilegu sannindi að ´reynslan sé mælikvarði allra hluta´. Aðferðafræði andlegheitaheimspekinnar (Búddisma, Jóga o.s.frv.) annars vegar og húmanísku rökhyggjunnar hins vegar er þannig miklu líkari en meþódólógía hvors þessa um sig annars vegar og trúarbragðanna hins vegar. Þetta sést af því að ósvikinn röksinni trúir, líkt og sannur andlegheitaheimspekingur, því einu sem sannanlegt er í mannlegri reynslu. - Hinn mannsinnaði rasjónalismi vorra tíma hefur gert heiminum það ómetanlega gagn að ´hreinsa borðið´ ef svo má til orða taka - þ.e. færa mannkynið aftur á hinn sanna byrjunarreit réttrar þekkingar, sem útþrykktur er með orðunum ´reynslan er eini mælikvarðinn´, og rutt burt allskyns þvaðri og loftköstulunum sem ekki eiga neina stoð í reynslu nokkurs manns eða nokkurrar veru (og ná jafnvel ekki máli innan vébanda kenningakerfis trúarbragðanna sjálfra; hér má t.d. nefna hinar fráleitu grillur ýmissa trúhópa um yfirvofandi ´heimsendi´ -  það sem ágætur hugsuður enskumælandi, sem ég man því miður ekki heitið á, kallaði ´crude apocalypticism´ - en annars er ástæða þess að ég tel heimsslitatrúnna þeólógíska bábilju sú einfalda röksemd að alvitur Guð hefði enga lógíska mótiveringu til að tortíma skyndilega því sem hann hefði í alvisku sinni skapað í upphafi). Því skyldu spíritúelir fílósófar taka heilshugar höndum saman við mannsinnaða skynsemissinna, þar sem andinn jafnt sem útgangspunkturinn í hvorutveggja lífsviðhorfinu er, þegar öllu er á botninn hvolft, einn og hinn sami. Í slíkri einingu og samstöðu opnast dyrnar að undrinu mikla þegar vísindi, trúarbrögð og heimspeki fallast í faðma í eindrægni og harmóníu - því frumuppspretta allra þessara þriggja fyrirbæra er (hversu mjög sem birtingarmyndir þeirra að fornu og nýju kunna að skyggja á þá staðreynd) ein og söm: reynslan og aftur reynslan.

 P.p.s Af gefnu tilefni skal tekið skýrt fram að ég efast ekki um að vísindafólk reisi kenningar sínar á persónulegri reynslu. Ég er einungis að segja að úr því almenningur trúi vísindunum  - réttilega - fyrir alls kyns hlutum sem hann hefur enga persónulega upplifun af, þá er enginn fótur fyrir því að véfengja orð sk. ´mystíkera´ þegar þeir segja frá hlutum sem almúginn hefur heldur enga persónulega erfaringu af: þ.e. því sem nefnt er ´dulræn´ reynsla. Allt byggist þetta, vísindi jafnt sem andleg reynsla, á skynjun og hinni margumtöluðu persónulegu upplifun - og hví skyldi skynjun og persónuleg upplifun sumra vega þyngra á metaskálum sannleikans en annarra?

Og þá er þessu óvenjulega langa röfli dagsins lokið! Góðar, heilnæmar og yndislegar stundir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Auðvitað er engin ástæða til að gera lítið úr eða efast um andlega reynslu fólks, en það er bara spurning hvaða merkingu maður leggur í hana - og svo er afskaplega erfitt að miðla svoleiðis reynslu til annarra. Hún er persónuleg. Vísindin eru ópersónulegri, og hægt er að skilja þau og forsendur þeirra án þess að stunda mælingar og rannsóknir sjálfur. Ég get til dæmis auðveldlega lesið lýsingar á því hvernig menn reiknuðu það út að jörðin snerist í kringum sólina, og skilið rökræna samhengið í því öllu saman án þess að rannsaka það sjálfur - en trúarreynsla er eitthvað sem er mun erfiðara að skilja með rökrænum hætti.

Þarfagreinir, 13.12.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Swami Karunananda

Ég hef samúð með því viðhorfi þínu að trúarreynslu sé mun erfiðara að miðla til annarra en sannindum vísindanna. En þarf hún að vera órökleg fyrir það? Er þetta ekki dálítið eins og með t.d. litinn grænan - enginn með sjón efast um tilvist hans, og í augum slíkra er ekkert dularfullt eða óljóst við hann; en samt gæti enginn þótt hann ætti lífið að leysa lýst honum fyrir manni sem hefur verið blindur frá fæðingu.

Bara pæling . . .

Swami Karunananda, 13.12.2007 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband