Hin geysispöku geislafræði

Segja má að allir hlutir í alheiminum, hvort sem þeir kallast ´efnislegir´ eða ´andlegir,´ hvort sem þeir tilheyri launsannreyndum sálarlífsins eða óravíddum stjarnanna, samanstandi af tiltekinni blöndu sjö grunnorkustrauma, sem nefndir eru ´geislar´ í esóterískri speki.

Merkileg er sú staðreynd að geislar þessir samsvara nákvæmlega hinum sjö litum regnbogans. En þetta þarf ekki að koma ýkja mikið á óvart þegar haft er í huga að öll jarðnesk þing eru aðeins dauf endurspeglan æðri og dýpri kosmískra sanninda.

Hefst þá upptalning geislanna:

1. geisli: Vilji og kraftur. Litur: rauður.

2. geisli: Kærleikur og viska. Litur: appelsíngulur.

3. geisli: Virk greind og aðlögunarhæfni. Litur: gulur.

4. geisli: Harmónía, fegurð og list. Litur: grænn.

5. geisli: Konkret þekking og vísindi. Litur: blár.

6. geisli: Trúarhollusta (devósjón) og abstrakt hugsjónamennska. Litur: dökkblár (indigó).

7. geisli: Seremónískur galdur og skipulag. Litur: fjólublár.

 

Mjög forvitnilega lærdóma má draga af geislafræðunum hvað varðar takmarkanir hinnar sk. ´vísindalegu heimsmyndar´ vorra daga. Við sjáum auðvitað að hin ´vísindalega heimsmynd´ er útþrykk fyrir aðeins einn geislanna sjö, hinn fimmta (geisla konkretrar þekkingar og vísinda), og representerar þannig bókstaflega einvörðungu 1/7 tilverunnar!

Aukinheldur má læra þá lexíu af geislafræðum að andleg fyrirbrigði eins og kærleikur, fegurð, list og hugsjónamennska eru ekki lengur óútskýranlegir aðskotahlutir í andsneyddum hræringum efnisins, eins og þeir hljóta óhjákvæmilega að vera í augum ´hinnar vísindalegu heimsmyndar´, heldur eru þeir þvert á móti fullkomlega rökrétt og eðlileg afleiðing grunnlögmála tilverunnar. Sjálfur kærleikurinn, þessi epítóma hins ´reikula, huglæga lífs´, er þannig í raun réttri jafn hlutlæg staðreynd, jafn náttúru- og lögmálsbundið fyrirbæri, jafn normöl og integröl og sjálfsögð afurð Móður náttúru, líkt og sveiflur sameinda og aðrar slíkar sannreyndir efnisvísindanna (*þó má ekki skilja þessi orð um hlutlægni kærleikans, auk listarinnar og annarra andlegra gæða, á þann veg að þessi fyrirbrigði eigi rót sína undir efninu; í hinstu greiningu hlutanna er ekki til neitt ´efni´ - allt sem til er, jafnt ´efni´ sem ´andi,´ stafar einungis og alfarið af tiltekinni samblöndu geislanna sjö, líkt og staðhæft var í inngangi pistilkorns þessa).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband