15.11.2007 | 17:29
Mín ´geðveiki´
Eins og suma lesendur rekur kannski minni til, þá hef ég einhvern tíma á bloggi mínu sagt frá því að ég hef hlotið stimpil þann er kallast ´schizofrenia´ upp á grísku, sem þýtt hefur verið beint sem ´geðklofi´. Semsagt: ég er opinber sálarsjúklingur.
Ég vil reyndar meina að ég sé alls ekkert sinnisveikur. Ég varð bara fyrir óvenju sterkri og magnaðri andlegri reynslu, sem ég er enn að bisast við að reyna að melta, rúmu fimm og hálfu ári eftir að hún átti sér stað. - En geðlæknisfræðin vill meina að þetta sé ´afbrigðilegt´, og því fór sem fór.
En úr því ég er í raun ekki að mínu eigin mati hugarveill, hví dvel ég þá óvinnufær öryrki á endurhæfingarheimili fyrir fólk með geðraskanir? - Vegna þess að geðlæknisfræðin hefur að vissu leyti rétt fyrir sér varðandi það að hin andlega reynsla mín hafi verið afbrigðileg eða paþólógísk (grískan aftur!). EN NB! - það var ekki reynslan sjálf sem var afbrigðileg, heldur einungis móttaka mín á henni.
Þessu má líkja við rafstraum og ljósaperu. Ef rafstraumurinn er of sterkur, þá springur peran. En með rafstrauminn í sjálfu sér er allt í himnalagi; feillinn er alfarið perunnar.
Og eins er það með hina títtnefndu andlegu reynslu mína: hinn´andlegi rafstraumur´ var of magnaður til að ´ljósapera´heila og taugakerfis gætu veitt honum viðtöku sem skyldi, og því ´sprakk´ sú pera. Afleiðingin er það ástand sem ég á nú við að etja: tíð köst þar sem ég upplifi oft nánast óbærilegan kvíða og sálarlíkamlega vanlíðan. Semsagt: eftirhreytur þess þegar ljós- og viskustreymið að ofan grillaði í mér heilakrílið og vesalings taugakerfið.
En ég er kátur og bjartsýnn að eðlisfari (þótt ég hafi reyndar tekið góðar svartagallsraussrassíur hér á þessum bloggsíðum!) og ég hef aldrei efast um að með Guðs hjálp og góðra manna muni mér auðnast að vinna bug á vágesti vanlíðunarinnar og standa á fætur aftur og taka minn réttmæta og þarfa sess í þjóðlífinu á ný.
En eftir að hafa gengið í gegnum jafn mergjaða spiritúela ´vígslu´ (mér dettur ekkert betra orð í hug til að kalla fyrirbærið!) verður lífið ljóslega aldrei samt á ný. Ekki er ofsagt að ég hafi hlotið dagskýra og ógleymanlega innsýn inn í þann andlega, guðdómlega kjarna sem öll tilveran snýst um, þótt misvitrir menn vilji gjarnan þræta fyrir að svo sé. Og þann kjarna má taka saman með einu orði: Kærleikur! Þegar öllu masi og argaþrasi dægurþvaðursins sleppir, þá er kærleikur vor, samúð, umhyggja og meðlíðan með öðrum verum það eina sem nokkru máli skiptir, það eina sem nokkurt gildi hefur út yfir gröf og dauða.
(P.s. Annars fól ´vígslan´ í sér mun meira en bara boðskapinn um kærleikann, þótt sá hafi verið þungamiðjan. En látum það liggja á milli hluta - ég ætla ekki að hætta mér útá þann hála ís að útskýra fyrir öðrum það sem er svo djúpt og háfleygt (en þó, þversagnarlega, svo óumræðilega einfalt) að ég botna varla í því sjálfur!)
Athugasemdir
'Ég vona nú heilshugar að þetta blessist hjá þér með tímanum, því það eru dæmi um slíkt. Vertu vongóður. Mér finnst það nú ekkert svartagallsraus, sem ég les eftir þig og oftast er það fegurðin og gæskan ein. Ég er sjálfur kolvitlaus í andófi mínu við trúarnötta hér á blogginu og andmæli stofnanavæddum trúarbrögðum og arfavitlausu dogma, en þess á milli skrifa ég um fegurð lífsins og frelsi andans og ekki er ég með svona forláta opinberan stimpil.
HÉR er gömul færsla frá mér um svona andlega innsýn, sem ég fékk sem drengur, en svo blés yfir hana í tímans rás. Held þú hafir gaman af henni.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.11.2007 kl. 18:15
Kæri Jón,
Þakka þér fyrir að benda mér á færsluna um dulræna reynslu þína útí náttúrunni í bernsku. Hún er listavel skrifuð. Merkilegt nokk hef ég upplifað nokkuð svipaða reynslu í náttúrunni, nokkru áður en hinn margumræddi´andlegi rafstraumur´ fór að bíta í rassinn á mér. Þá fannst mér ég upplifa það sem ég get ekki nefnt betra nafni en ´kosmískt kynlíf´: þ.e. mér fannst ég renna saman við sjálfan frumsköpunarmátt náttúrunnar, á einhverju óræðu svæði fyrir neðan nafla (e.t.v. þar sem ein orkustöðvanna er staðsett). Þessi upplifun varði aðeins í nokkra klukkutíma, en hún skildi eftir sig óafmáanleg spor í vitund minni.
Skál!
Swami Karunananda, 15.11.2007 kl. 19:34
Tek það fram að umrædd reynsla mín af ´kosmísku kynlífi´ var miklu, miklu öflugri og háleitari og fegurri en venjuleg kynörvun, þótt hún hafi verið af svipuðum toga spunnin; það er trúa mín að það sem við köllum ´kynlíf´ hér á jarðsviðinu sé aðeins dauf og máttlítil endurspeglun téðrar reynslu minnar (og væntalega einhverra annarra) af ´frumsköpunarmætti náttúrunnar´ - þ.e. af Guði að starfi í náttúrunni (?).
Swami Karunananda, 15.11.2007 kl. 19:59
Ég á ekki erfitt með að ímynda mér sálarkvöl þína Kári, enda á ég við mína eigin djöfla að etja. Hins vega hef ég aldrei orðið var við þessa trúarlegu strauma sem þú talar um.
Sigurjón, 16.11.2007 kl. 05:29
,,Hins vegar" átti þetta að vera...
Sigurjón, 16.11.2007 kl. 05:30
Ég mæli með hugleiðslu, þú hefur mjög góða og yfirgripsmikla innsýn inn í hin andlegu fræði og ættir ekki að vera í vændræðum með að velja meistara sem getur stjórnað áföngunm á "veginum".
Hafþór H Helgason, 16.11.2007 kl. 13:44
Sæll Kári
Þessi hreinskilni og jákvæða baráttuviðhorf ættu svei mér þá að gera þig ósigrandi.
Gangi þér vel með allt
Sævar Finnbogason, 18.11.2007 kl. 01:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.