29.10.2007 | 14:20
Sjö líkama lýsing
Ein afkáralegasta hjátrú vorra tíma er sú að mannskepnan hafi einungis einn líkama, þ.e. hinn grófgerða efnisskrokk.
Hve miklu raunsærri og réttari er ekki sú kenning kristninnar að maðurinn sé þríþætt heild, er samanstandi af (efnis)líkama, sálu og anda!
En þótt ofangreind skoðun kristninnar sé snöggtum viturlegri en einslíkamaþvættingurinn, þá er hún á endanum of gróf og ónákvæm til að fanga sannleikann allan.
Sannleikurinn allur er sá að mannveran hefur ekki einn, ekki þrjá heldur heila sjö líkama. Og skulu þeir nú taldir upp, í niðurfarandi röð eftir mikilvægi (austrænu heitin innan sviga):
1) Efnislíkaminn (Sthula Sharira): Skiljanlega er ekki þörf fyrir að hafa mörg orð um þennan líkama - hann er jú sá sem langflest fólk Jarðar er pólaríserað í dags daglega. Frá sjónarmiði hinna esóterísku fræða er efnislíkaminn sá lang takmarkaðasti og veigaminnsti líkamanna sjö. Þó skal hann ekki vanræktur eða illa með hann farið, enda er hann þrátt fyrir allar sínar takmarkanir ´musteri Heilags anda,´ á tungutaki kristninnar. Mjög mikilvægt er að halda efnislíkama við góða heilsu með hæfilegri hreyfingu, hollu og góðu mataræði, o.s.frv.
2) Orkulíkaminn (Prana Sharira): Líkami þessi er svotil nákvæm eftirmynd efnislíkama (eða, það sem ef til vill réttara væri, efnislíkami er svotil nákvæm eftirmynd orkulíkama). Orkulíkami ´anímerar´ efnislíkama; án hins fyrrnefnda væri hinn síðarnefndi líflaust hrúgald (og verður það á endanum við líkamsdauðann, þegar orkulíkaminn dregur sig úr efnislíkama). Nútímavísindi hafa fengið nokkurn pata af orkulíkama og nefna virkni hans ´taugaorku´ eða eitthvað álíka.
2) Geðlíkaminn (Kama Rupa): Þessi líkami er oft nefndur hinu óljósa og villandi heiti ´astral-líkami´. Geðlíkami er miðstöð tilfinningalífsins hjá meðalmenninu. Hann þrífst á tilfinningahita og emósjónelum sveiflum, og skiptir það hann engu máli hvort nefndar geðsviptingar eru góðar eða slæmar, þægilegar eða óþægilegar. Eitt helsta takmark andlegs þroska er að ná stjórn á geðlíkama og stöðva hneigð hans til ýfinga og gera hann líkt og slétt stöðuvatn svo sól innsæisins geti skinið á yfirborð hans í allri sinni óbrengluðu dýrð. - Í svefni færist vitund flests fólks þessarar Jarðar úr efnislíkama yfir í geðlíkama, og slíkt hið sama gerist við dauða efnislíkamans; vitundarástandið á nóttunni og milli jarðvista er þannig samsvarandi í aðalatriðum - lítil furða þótt dauðinn sé jafnan kallaður ´svefninn langi´! (þó er sá munur á að draumaástandið er iðulega nk. samstuð milli hughrifa úr geðheimum annars vegar og bjagaðra minningabrota úr dagvitund hins vegar, en tilveran í geðheimum milli jarðvista er ´hrein upplifun,´ ómenguð þeim slitrum úr minningaforða dagvitundar sem valda því ankannalega og ómarktæka rugli sem draumar eru yfirleitt).
4) Huglíkaminn: Ekki þarf mörgum orðum að eyða í þennan líkama; hann er miðstöð hugsanalífsins í meðaljóninum. Venjan er í launfræðum að skipta huglíkama í tvennt: lægri eða konkretan rökhuga annars vegar, og efri eða abstraktan rökhuga hins vegar. Lægri eða konkreti rökhugurinn vinnur með áþreifanlegar og tölfræðilegar staðreyndir og er andleg heimkynni vísindamannsins. Efri eða abstrakti rökhugurinn starfar með almenn hugtök og sértekningar og er andleg hýbíli heimspekingsins. - Á sínum efstu stigum litast huglíkami mjög af innsæislíkama, og þegar best lætur eru heimspekingar og vísindamenn mjög intúitíft þenkjandi.
5) Innsæislíkaminn (Buddhi): Líkami þessi einkennist af tveimur kosmískum eðlisþáttum, sem eru að vissu leyti andstæðir pólar, en mynda þó þegar best lætur eina samhæfða heild. Eðlisþættir þessir nefnast ´kærleikur´ og ´viska´. Uppvakin og samstillt mynda þessi element það sem á erlendum tungum nefnist ´intúisjón´ en á voru máli ´innsæi´. - Þegar tekur að bjarma fyrir innsæinu í skotum sálarinnar og það tekur að yfirskíma rökhugsunina, þá er það líkt og þegar hið dýrðlega geislaflóð sólarinnar brýst fram og byrgir algerlega sýn á hin daufskina mána - en þó, NB, hverfur máninn alls ekki þótt sunna hafi sig á loft; hann missir eingöngu ljóma sinn. Og þannig er það með innsæið og rökhugsunina; þótt opinberanir innsæisins fari óralangt fram úr því sem rökhugsunin nær, þá hverfur rökhugsunin ekki þar með. Sannkallað innsæi er aldrei í mótsögn við lógískan þankagang; hún fer aðeins óendanlega langt handan hans. - Innsæið er að baki öllum meiriháttar afrekum í listum og vísindum og trúarbrögðum og öðru þess háttar. - Innsæið er hinn sameiginlegi brunnur sem allar innblástnustu trúarhreyfingar mannkynssögunnar hafa ausið af. Jesús Kristur, Búdda, Múhammeð og aðrir stórspámenn sögunnar - allir bergðu þeir á dýrðarvatni innsæisins. - Innsæið virkar með leifturhraða. Mózart ´heyrði´ tónverk sín í einni svipan og það eina sem hann þurfti að gera var að punkta þau niður; slík er reynsla allra andans snillinga fyrr og síðar, vísindasénía, listavirtúósa og trúaropinberenda. Og líkt og fyrr var ýjað að er tengingin við innsæið grundvöllur þess að mannskepnan geti öðlast hinn tvíþætta gimstein, kærleika og visku. Engin furða þótt innsæið sé oft nefnt ´Kristsvitund´ í nútíðarbókmenntum andlegrar náttúru.
6) Andinn (Atma): Eðlisþáttur þessi hefur tvo höfuðeiginleika: andlegan vilja og einstaklingsaðgreiningararprinsíp. Andinn er semsagt grundvöllur þess að vér getum öðlast reynslu sem sérgreindir vitundarpunktar, aðskildir frá Heildinni sem trúarbrögðin nefna Guð. Án andans (þ.e. sérgreiningarprinsípsins og einstaklingsbundins vilja) myndum vér þurfa að dvelja um alla eilífð í hinni hálfvitalegu einingaralsælu himinsins, og fara gersamlega á mis við þá ómetanlegu reynslu og vitundarútvíkkun sem hinar síendurteknu vistir á Jörðu hér veita oss.
7) Guðdómsneistinn (Mónad): Element þetta er sýnþesa huga, innsæis og anda, á æðsta og guðdómlegasta stigi. Virk greind, kærleikur / viska og andlegur vilji eru höfuðeinkenni guðdómsneistans. Annars er ekki ráðlegt að hætta sér út í nánari kjaftagang um náttúru þessa háleitasta og æðsta eðlisþáttar mannsins; vér eigum fullt í fangi með að skilja innsæið, hvað þá heldur stigin þar fyrir ofan. Tengingin við innsæið er meginmarkmið vitundarþróunarinnar á vorri tíð; andinn og guðdómsneistinn bíða síns tíma langt, langt í órafjarlægð fimbulframtíðar. - Guðdómsneistinn er eini eðlisþáttur mannsins er varir ætíð frá sjónarmiði óendanleikans. Efnislíkami, orkulíkami, geðlíkami og huglíkami endurnýjast með hverri jarðvist, og jafnvel innsæislíkami og andi eru í fyllingu tímans leystir upp, þegar guðdómsneistinn logar og bálar í allri sinni ólýsanlegu dýrð og dásemd, laus við hulur allra lægri líkamanna. Þegar þessu yfirmáta herlega stigi er náð er guðdómsnestinn orðinn alharri náttúrunnar, og getur efnað og afefnað líkamsbirtingarmynd sína algerlega að vild. En um þetta er best að segja sem minnst, þar sem svo firinfjarlægur þessi unaðsleiki er.
Þá er þessari stuttu yfirferð um líkamana sjö lokið. Vona ég að lesendur hafi haft gagn og gaman af. Sú vitneskja, að líf vort og tilvera takmarkist ekki við hinn örskamma tíma yfirstandandi jarðvistar, hlýtur að veita yfirgnæfanlega gleði öllum þeim sem dýrðarboðskap þennan nema. Vér erum ekki stundarfyrirbrigði, lauf í vindi; né, vér erum ekkert minna en pílagrímar eilífðarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.