Samruni Austurs og Vesturs

Tímarnir sem við lifum á nú eru einhverjir þeir mest spennandi í sögu mannkynsins.

Allir siðmenningarrisarnir sem hafa þróað með sér sín aðskildu menningarverðmæti í árþúsundanna rás hver í sínu aðgreinda lagi eru nú að renna saman í eitt, og þar með skapa nk. ofurmenningu - þ.e. kúltúr sem sameinar og upphefur allt hið besta úr áðurnefndum menningarstraumum. Heild sem er miklu æðri summu partanna.

Andleg verðmæti Austursins (trúarbrögð og spiritúel heimspeki og listir) og veraldleg verðmæti Vestursins (tækni og vísindi) munu þannig sameinast í stórkostlega heild sem tekur hinum gömlu sérgreindu menningarheimum Austurs og Vesturs hvorumtveggja langt um fram.

Lengst hefur þessi þróun hingaðtil vitaskuld náð hjá Japönum, sem hafa náð að tileinka sér tækni- og vísindaþróun Vestursins svo vel að þeir hafa í raun farið langt, langt framúr langflestum vestrænum ríkjum; nánast allar meiriháttar uppgötvanir og uppfinningar á sviði tækninnar koma nútildags frá Japan.

En allt þetta hafa Japanir afrekað án þess að missa nokkurntíma sjónar á hinum árþúsundagömlu menningarverðmætum sínum; í Japan blómstrar hið gamla og hið nýja hlið við hlið í eindrægni og harmóníu.

Í fótspor Japana eru nú að feta tvö fjölmennustu ríki heims (samanlagt með meira en þriðjung íbúa Jarðar), þ.e. Indland og Kína. Hvortveggja eru þessi lönd óðum að tileinka sér allt hið besta úr iðn- og tölvuvæðingu nútímans. Ég er sérlega spenntur yfir þróuninni á Indlandi; þegar hin stórbrotna og ævaforna en þó síunga menningararfleifð Indverja sameinast því æðsta úr nútímatækni og -vísindum, þá eigum við von á einhverjum magnaðasta menningarsamruna í sögu mannkynsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband