7.10.2007 | 19:09
Goðsögnin um alþjóðastöðu enskunnar
Ýmsar manneskjur sem lesa yfirskrift þessa pistils munu væntanlega hvá og spyrja í hjartans einfeldni hvort allir tali ekki ensku núorðið?
Þessi trú, að allir tali ensku nútildags, er ekkert annað en argasta hjátrú sakleysingja sem hafa aldrei haft nein veruleg kynni af útlendingum utan hins engilsaxneska málsvæðis. Þessa fullyrðingu mína, sem mörgum mun þykja af djarfara taginu, styð ég meðal annars þeim rökum að skoðanakannanir hafa ítrekað leitt í ljós að innan við einn tíundi hluti íbúa Evrópusambandsins (enskumælandi þjóðir undanskildar, að sjálfsögðu) skilur þótt ekki sé nema einföldustu barna-babbls ensku.
Þetta þarf í raun ekki að koma svo mjög á óvart við nánari tilhugsun. Ástæða þess að við Íslendingar kunnum ensku svona vel (reyndar eru áhöld um hvort við höfum svo gott vald á ensku eftir allt saman - en látum það vera hér) er ósköp einfaldlega landfræðileg og menningarleg nálægð fósturjarðar vorrar við helsta stórveldi heims, Bandaríkin. Í flestum öðrum löndum Evrópu, sem ekki búa við nefnda nálægð, er allt annað upp á teningnum. Þar hlustar fólk að mestu á innlenda popptónlist á sínu móðurmáli og allt sjónvarpsefni er talsett; og námsefni í skólum, jafnvel háskólum, er að mestu leyti á móðurmáli téðra þjóða. Útkoman er sú að ólíkt Íslandi, þar sem enskan glymur stöðugt í öllum ljósvakamiðlum, þá eru kynni ó-enskumælandi Evrópuþjóða af engilsaxneskunni einfaldlega af of skornum skammti til að fólk læri þessa máttugu ´alþjóðatungu´ að nokkru ráði.
Og fyrst málum er svona fyrirkomið í Evrópu, þá er borin von að ástandið sé nokkru skárra í öðrum heimshlutum, sem enn fjær eru í sveit settar hinu enskusprokandi málsvæði.
Og ástandið á bara eftir að versna. Orsakir þess að enskan á að heita alþjóðatunga hafa ekkert að gera með kosti eða lesti enskunnar sem tungumáls; meginorsökin er einfaldlega hernaðarlegir og efnahagslegir yfirburðir hinna enskumælandi landa. Eftir því sem þjóðum, sem aðrar tungur tala, vex fiskur um hrygg í efnahags- og hernaðarmálum þá rýrnar að sama skapi staða enskunnar sem milliþjóðamáls. Þjóðverjar, Japanir og ýmis önnur upprennandi stórveldi hafa núorðið fullt efni á því að krefjast af viðskiptaþjóðum sínum að hin hagrænu samskipti fari fram einvörðungu á tungum nefndra risavelda.
Og ýmsir þykjast sjá þess teikn á lofti að kínverskan muni á næstu áratugum þoka enskunni til hliðar sem alþjóðatungu. Líkt og með enskuna hefur þróun þessi ekkert með ágæti kínverskunnar að gera sem tungumáls; ástæðan er eingöngu hinn ævintýralegi hernaðar-og hagfræðiuppgangur kínversku þjóðarinnar.
En það eru mjög góð rök fyrir því að hvorki enskan né kínverskan né nokkur önnur lifandi þjóðtunga eigi skilið að þjóna hlutverki milliþjóðamáls. Og þau rök eru á þann veginn að þeirri þjóð eða þeim þjóðum, sem eiga slíkt sprok að móðurmáli, er í lófa lagið að gína yfir öllu andlegu og menningarlegu lífi jarðarbúa. Að eiga alþjóðamálið að móðurtungu veitir því fólki, sem svo heppilega er í sveit sett, algerlega óviðunandi forskot á aðrar þjóðir, sem verða að kosta til miklu erfiði til að nema hina útvöldu tungu, er hluti jarðarbúa hlýtur í allsendis óverðskuldaða forréttinda-vöggugjöf.
Til þess að setja sér þessa staðreynd rækilega fyrir sjónir skal lesendum bent á að íhuga hvernig málum yrði skipað hér í heimi ef vort ástkæra móðurmál hlyti sess alþjóðatungu. Rennið í huganum yfir samskipti ykkar við erlent fólk sem sest hefur hér að, jafnvel manneskjur sem hafa búið hér svo áratugum skiptir. Reynið að rifja upp yfirburðakenndina sem þið hafið haft í þessháttar samskiptum; hvernig þið hafið hneigst til að tala niður til íslensku-stautaranna erlendu líkt og um hálf-ómálga börn væri að ræða. Og þegar þið hafið sett ykkur þetta nógu rækilega fyrir hugskotssjónir, þá skuluð þið koma til mín og reyna að réttlæta það að enskan eða nokkur önnur lifandi þjóðtunga eigi skilið að skipa sess milliþjóðasproks.
En hvað er þá til ráða? Ég mun leitast við að svara þessari spurningu eftir bestu getu í komandi pistli / pistlum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.