Lesið helgirit heimsins

Lestur helstu helgirita veraldar er ómetanlegur andlegur fjársjóður öllum skynibornum mannverum. Slíkur lestur eykur víðsýni og spiritúela dýpt, og er óbrigðult meðal við hvers kyns öfgum og eintrjáningshætti - sérstaklega því andans eitri að telja eigin trúarbrögð hin einu sem Guði þóknanleg eru. Því hver sú manneskja sem kynnir sér af kostgæfni allar helstu trúarbókmenntir Jarðar kemst ekki hjá því að vera slegin þeirri kennd að þetta sé meira eða minna allt sama vatnið, einungis í mismunandi ílátum.

Til að leiðbeina nýgræðingum í þessum fræðum eilítið skulu nú talin upp megin helgirit hinna aðskiljanlegu trúarhreyfinga heims:

Kristni og Gyðingdómur- Nýja testamentið allt (fyrir utan hina geðklofakenndu Opinberunarbók Jóhannesar, sem vel má hlaupa yfir) og nokkrar bækur úr Gamla testamentinu, s.s. Jobsbók og Prédikarann (annars má að mestu sleppa Gamla testamentinu, nema fólk hafi morbískan áhuga á hlutum sem vekja viðurstyggð öllum siðmenntuðum manneskjum). Einnig ráðlegg ég fólki að kynna sér rit um Kabbala, launspekiarm Gyðingdómsins. Og devósjónel dulspekirit Kristindómsins eru mörg hver afar athyglisverð (Tómas a Kempis, Meister Eckhart o.fl.), þótt viðurkenna verði ég að hafa ekki lesið þau sem skildi - það er nokkuð sem ég þarf að bæta úr!

Platónismi - Þar gnæfa auðvitað hæst rit andans jöfursins Platóns, en einnig má benda á nokkra aðra sporgöngumenn Platóns, sem jafnan eru kallaðir ný-platónistar; þar ber fremstan að nefna Plótínos nokkurn.

Hindúismi - Hindúasiður hefur að geyma sennilega ríkustu og fjölskrúðustu bókmenntir allra trúarbragða þessarar plánetu. Þar ber auðvitað höfuð og herðar yfir aðrar hin ægifagra Bhagavad Gita, en einnig má benda á hin oft stórbrotnu Vedarit (þar helstar hinar mystísku perlur sem nefnast Upanishödur). Aukinheldur er vert að minnast á tvær andlegar fjársjóðskistur, sem teljast að vísu ekki til eiginlegra helgirita, en hafa engu að síður mótað mjög trúarlega lyndiseinkunn Indverja að fornu og nýju : sagnabálkarnir tveir Ramayana og Mahabharata, (en fyrrgreind Bhagavad Gita er einungis einn tiltölulega stuttur kafli í síðarnefndu epíkinni). Þá eru Jóga-sútrur Patanjalis mikil gullnáma. Og hvað ný-hindúisma snertir má mæla með ræðusöfnum og ritum hins virta andans fílósófs Satya Sai Baba. Og ýmsir telja ´Ævisögu Jóga´ eftir Paramahamsa Yogananda eitt merkasta rit sem samið hefur verið um andleg málefni. Og ekki má gleyma Vedanta-spekinni, sem ófáir álíta sjálfan gulltind hins mikla fjalls hindúískrar heimspeki. Vedanta-spekin hefur verið kölluð samnefnari og sýnþesa allrar trúarhugsunar mannkyns, hvorki meira né minna; en of langt mál væri að útskýra það hér. - Helstu boðberar Vedanta voru þeir Ramakrishna Paramahamsa, sem hélt fram fölskvalausri einingu allra trúarbragða (sem er ein helsta kenninsetning Vedanta), og lærisveinn hans Swami Vivekananda, sem fyrstur manna kynnti hina forkunnarfögru indversku heimspeki á Vesturlöndum.   - Einn hliðarangi Vedanta-spekinnar, sem hlotið hefur allmikla hylli á Vesturlöndum á vorum dögum, nefnist Advaita-vedanta, og boðar róttæka og algera einhyggju (enda þýðir ´Advaita´ bókstaflega ´ótvíleiki´). Merkasti postuli Advaita-vedanta hefðarinnar í síðari tíð er tvímælalaust hinn gríðar-djúpi en jafnframt feyki-skýri heimspekingur Ramana Maharshi. (Annars má segja um Advaita-vedanta spekina að hún hneigist til að boða ópersónulegt Alvald (gjarnan kallað því yfirlætislausa nafni ´Vitundin´) í stað persónulegs Guðs, en indversk fílósófía almennt, og Vedanta-spekin sérstaklega, hefur sterka tilbeygingu til að sameina trú á hinn persónulega Guð og hið ópersónulega Absólúta; allt veltur þetta á sjónarmiði, þroska og persónulegu kjöri hverrar og einnar manneskju). Bækur þeirra Ramakrishna, Vivekananda, Maharshi, og fleiri indverskra spekinga sem ekki hafa verið nefndir hér, er auðsótt að nálgast á Vesturlöndum nútímans - á bókasöfnum, netbókabúðum svo sem Amazon, o.s.frv.

Íslam - Kóraninn (óvænt, óvænt!). Einnig má ráðleggja fólki að kynna sér rit Súfismans, hins esóteríska arms Íslams. Ljóð persneska þrettándualdar skáldrisans Rumi eru fyrirtaks inngangur að námi í Súfa-speki.

Búddismi - Dhammapada (orðskviðir Búdda). Aukinheldur mæli ég með skemmtilegri og djúpri bók sem ég las á Esperantó með heitinu ´La instruoj de Budho´(í enskri þýðingu ´The Instructions of the Buddha´), en það rit veitir ógleymanlega innsýn inn í kínversk-kryddaðan japanskan alþýðubúddisma, sem er um margt merkilega líkur hinum þeísku trúarbrögðum, þótt Búddisminn almennt hneigist til guðleysis; þessi líkindi við guðsmiðaðar religjónir má ráða af því að í ofangreindri bók er Búdda tekinn í guðatölu, og lýsingarnar á valdi hans og visku og alnálægð og öðru þess háttar svipar afar mikið til útmálana guðshverfra trúarbragða á Almættinu.

Taóismi - Bókin um veginn, það magnaða, magnaða rit. Ekki þarf fleiri orð um það.

 - Þá er þessari stuttu (og óhjákvæmilega rúdimenteru) upptalningu á mikilvægustu helgiritum veraldar lokið. En auðvitað væri hægt að nefna mörg fleiri, svo ekki sé minnst á þann aragrúa andlegra bókmennta sem ekki falla innan vébanda neinna ákveðinna trúarbragða: eitt dæmi sem kemur sérlega skýrt upp í hugann er ritsafn andans tröllsins danska Martínusar, sem uppi var á fyrri helmingi 20.-aldar. Höfuðverk hans, ´Livets Bog´ (þrjú hnausþykk bindi, hvert um sig yfir 1000 bls. að lengd), er hreinasta eðalelfa öllum manneskjum sem þyrstir í andans svölun; þar er fjallað í löngu, ítarlegu og framúrskarandi skýru og kjarnyrtu máli um hérumbil allt sem snýr að gerð alheims og mannveru, jafnt jarðnesku sem andlegu.

Og þá er bara að hefja lesturinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband