26.9.2007 | 16:12
Um sálnanna aðskiljanlegan aldur
Einhver mest heillandi og fasínerandi andans fræði sem heiminum hafa opinberast hingað til eru kennd við astral-veruna Michael. Í nefndum fræðum kemur fram stórmerkilegt atriði sem ég hef ekki séð tæpt á í nokkurri annarri andans kennslu á jafn ítarlegan og skemmtilegan hátt. Atriði þetta snýr að hinum mismunandi aldri sálnanna sem eru í endurholdgunarferli sínu hér á Jörðu; það er semsagt svo að sálirnar, sem eru að strita hér í dufti Jarðar, eiga mismargar jarðvistir að baki og endurspeglast það í mismunandi þroska sálnanna. En Michael-fræðin skipta þróunarstigum sálnanna gróflega í fimm flokka, sem hér verða taldir upp í stuttu máli:
1) Hvítvoðungssálir (infant souls) eru nýkomnar niður í efnið, og líf þeirra snýst þar með um að læra að lifa af og sjá um sig sjálfar í efnisheiminum og venjast því að vera fangnar í grófgerðan jarðlíkama. Hvítvoðungssálir eru dulhneigðar að eðlisfari, en á mjög frumstæðan og lítt vitrænan hátt; talshátturinn ´að trúa á stokka og steina´ lýsir mjög vel trúarlyndiseinkunn hvítvoðungssálnanna. - Sálirnar á hvítvoðungsaldri eru svo uppteknar við að læra að sjá um sig sjálfar og höndla tilveruna í hinum framandi og oft ógnvekjandi efnisheimi að eiginlegt fjölskyldulíf fyrirfinnst sjaldnast hjá þeim.
Dæmi um þjóðfélög þar sem hvítvoðungssálir eru í meirihluta eru frumbyggjaþjóðfélög í Afríku og Ástralíu.
2) Barnssálir (baby souls) hafa lært lexíurnar um að lifa af í efninu, og snúa þær sér að næsta skrefi í hinni mannlegu þróun : að byggja upp og viðhalda stofnunum siðmenningarinnar - trúarbrögðum, stjórnkerfi, dómskerfi og öðru þess háttar. Barnssálir eru afar kreddufastar og lítt umburðarlyndar gagnvart sjónarmiðum sem víkja frá þeirra eigin; heimurinn skiptist í svart og hvítt, rétt og rangt, ´okkar veg´ og ´þeirra veg´ - og vitanlega er ´okkar vegur´ sá eini sanni! - Það er á barnssálaraldrinum sem stofnunin fjölskylda verður til, og það með fullum þunga; barnssálirnar mynda afar sterk og samheldin fjölskyldubönd, og svokölluð ´fjölskyldugildi´ eru í hávegum höfð hjá þeim.
Dæmi um þjóðfélög þar sem meirihluti íbúanna er barnssálir eru velflest íslömsk ríki nútímans.
3) Ungar sálir (young souls) hafa lagt að baki uppbyggingu grunn-siðmenningarstofnanna og vinda sér í persónulega framabaráttu. Ungu sálirnar líta á heiminn sem einn allsherjarkeppnisvöll um metorð, frægð, auðæfi og annað þess háttar - og auðvitað ætla þær sér að sigra! Ungar sálir eru yfirleitt afar mótiveraðar, fókuseraðar, iðjusamar og duglegar - en oft á kostnað fyrirhyggju sem og samúðar með öðrum mönnum. Sakir þess hve mjög þær einblína á jarðlífið líta ungu sálirnar oft með forakt á andleg málefni og álíta hugmyndina um framhaldslíf helbera fjarstæðu : það er aðeins til eitt líf og við skulum svo sannarlega ekki láta það fara til spillis, heldur gefa allt okkar í að komast áfram! - Ungsálaraldurinn er mikið uppbyggingarskeið praktískra vitsmuna; tækni og hagnýt vísindi eru oft ungum sálum mjög hugleikin.
Dæmi um þjóðfélög þar sem ungar sálir eru obbi íbúanna eru Bandaríkin og Japan.
4) Þroskaðar sálir (mature souls) hafa fengið útrás fyrir metorðafýsnina og snúa sér að ræktun tilfinningalífsins sem og og samskipta við annað fólk : fjölskyldu, vini o.s.frv.. Þroskaða skeiðið er um margt hið erfiðasta og flóknasta í allri sálarþróuninni, og geðklofi, þunglyndi og aðrir sinnissjúkdómar eru miklu útbreiddari hjá þroskuðum sálum en á nokkrum öðrum sálarstigum. Allt er það sakir hins tilfinningalega intensítets sem fylgir þroskaða skeiðinu. Samúðin með öðru fólki, sem ungu sálirnar forsmá að miklu leyti, fer fyrst að blómstra hjá þroskuðum sálum. Og trúhneigðin, sem er annað atriði sem að mestu leyti liggur niðri hjá ungum sálum, lætur aftur á sér kræla á þroskaða tímabilinu, einkum á seinni stigum þess - en ekki með sama þunga og hjá gömlum sálum. En þroskaða skeiðið snýst ekki eingöngu um tilfinninga- og samskiptarækt; vitsmunaþróunin, sem hófst fyrir alvöru hjá ungu sálunum, heldur áfram á þroskaðasálaraldrinum, en á abstraktara og akademískara plani. Háskólar heimsins eru því að mjög miklu (ef ekki mestu) leyti skipaðir þroskuðum sálum. - Þroskaðar sálir eru gjarnan miklir menningarvitar, og tíðir gestir leikhúsa, listasafna og annars þess háttar.
Dæmi um þjóðfélög þar sem meginþorri íbúanna er þroskaðar sálir eru Ítalía og Spánn.
5) Gamlar sálir (old souls) hafa þroskað með sér ríkulegt tilfinningalíf og samúð með öðru fólki, og þróað gjöful og uppbyggileg samskipti við vini og ættingja o.s.frv.. Og þá er einungis eftir að vinda sér í lokastig hinnar mannlegu þróunar, sem er að upplifa það sem trúarbrögðin nefna ´uppljómun´ eða ´sáluhjálp´. Gömlu sálirnar eru semsagt afar andlega sinnaðar, líkt og hvítvoðungssálirnar, en á allt annan og miklu þroskaðari og vitrænni hátt, eins og gefur að skilja. Sálirnar gömlu forðast yfirleitt að láta bendla sig við nokkur ákveðin trúarbrögð eða andlegar hreyfingar, heldur kynna sér gaumgæfilega allar andans stefnur sem völ er á, og smíða upp úr því sín eigin trúarbrögð, sína eigin heimspeki og lífssýn. - Ólíkt yngri sálunum (sérstaklega barnssálunum), sem lifa yfir ytri aga og organíseringu, þá er gömlu sálunum lítt gefið fyrir ytri skikkan og skipulag; þær vilja hafa óskorað frelsi til að fylgja sínum oft eigindómslegu duttlungum- eða, með sympatískara og ljóðrænna orðalagi, til að hlíta kröfum hjartans, en ekki utanaðkomandi þvingunum. - Gamlar sálir eru oftast gróflega misskildar af yngri sálunum, sérílagi þeim ungu, og álitnar skrýtnar, sérvitrar, latar og ómótiveraðar, sakir hins afar takmarkaða áhuga þeirra á að ´komast áfram í þjóðfélaginu´. En téð leti og mótiveringarskortur eru aðeins á yfirborðinu, því það sem gömlu sálirnar skortir á í ytri hamagangi bæta þær upp og ríflega það með mun meiri virkni og intensítets hið innra, í huga, sál og anda. - Á seinni stigum verða gamlar sálir mjög afhuga því að láta mata sig á skipulagðri háskólamenntun; þær vilja læra upp á eigin spýtur nákvæmlega það sem þeim dettur í hug hverju sinni, og ekkert annað. - En þótt þær gömlu séu iðulega afhuga veraldlegri sýslan, þá hafa þær oft furðu glöggt og skarpt auga fyrir því ´hvernig kaupin æxlast á eyrinni´ - þá sjaldan sem þær nenna að hugsa um þanniglagað.
Dæmi um þjóðfélög þar sem gamlar sálir eru í meirihluta eru Holland og okkar ástkæra fósturjörð (þó er á báðum þessum stöðum í höfuðdráttum um að ræða sálir á snemm-stigum gamalaldursins - eina þjóðfélag sögunnar sem mér er kunnugt um að hafi samanstaðið að mestu af sein-stiga gömlum sálum er Indland til forna; þar af orðspor Indverja, er enn eimir sterklega af, sem mikilla andans spekinga en lítilla veraldlegra framkvæmdamanna).
-Útvíklun sálarinnar gengur yfirleitt afar hægt fyrir sig. Það tekur marga tugi ef ekki hundruði jarðvista að klára eitt einasta af ofangreindum þroskastigum. Hvert æviskeið er þannig ekki nema örskotsbrot af heildar-þróunarferli sálarinnar. Berið þetta saman við þá absúrdu þeoríu að oss sé ekki léð nema eitt skitið jarðlíf! - hvílíkt langlundargeð og fjarsýni sem endurholdgunarkenningin vekur!
- En nú kunna sumir að spyrja : hvað tekur við þegar gömlu sálirnar hafa náð takmarki sínu og öðlast ´uppljómun´ eða ´sáluhjálp´ og þannig náð hápunkti hinnar mannlegu þróunar? Og eina svarið sem hægt er að gefa er að þar með er þroskaferli sálarinnar hvergi nærri lokið; þvert á móti er hún frá kosmískum sjónarhóli rétt að byrja! En um þetta er þýðingarlaust að fást; við sem enn erum að sveitast í barningi og streði jarðlífsins getum ekki einu sinni gert okkur í hug hvernig ´uppljómunin´ er - og hvað þá heldur hvað við tekur handan hennar.
Í blálokin vil ég hvetja lesendur til að kynna sér Michael-fræðin og skoða síðan veröldina og hinar aðskiljanlegu siðmenningar hennar útfrá sjónarhóli fyrrnefndra fræða. Með því móti geta lesendur verið vissir um að öðlast innsýn í atburðina í mannheimum sem er utan seilingar færustu félagsfræðinga eða mannfræðinga (þótt ekki sé ætlun mín að gera lítið úr því eðla fólki).
Góðar stundir.
Athugasemdir
Já það er vel þess virði að kynna sér þessi fræði.
Sævar Finnbogason, 30.9.2007 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.