Sér er nú hver kærleikurinn!

Margt kristið fólk lætur í það skína að engin trúarbrögð önnur en Kristnin geri jafn skýrar og afdráttarlausar kærleikskröfur til fylgjenda sinna.

Reyndin er öll önnur. Mörg trúarbrögð eru miklu ákveðnari og víðtækari í kærleikskröfum sínum en Kristindómurinn. Hér má benda á svo til allar stærstu trúarhreyfingar fjar-austursins : Búddisma, Taóisma, Jainisma og stóran hluta Hindúismans. Allar þessar religjónir herma að við eigum ekki aðeins að elska og forðast að skaða aðra menn; við eigum einnig að elska og forðast að skaða allar aðrar lífverur sem þessa Jörðu byggja. Margir Búddistar, svo ein trúin sé tekin, hafa ekki augun af veginum þegar þeir ganga, til að forðast að stíga á eina einustu pöddu.

Þetta er nokkuð sem skortir svo til algerlega í Kristninni. Aldrei hef ég heyrt eina aukatekna kristna manneskju prédika að það sé synd að drepa dýr. Og kvað ekki hinn þræl-kristni heimspekingur Rene Descartes að dýrin væru ekkert annað en sálarlausar maskínur, og því væru kvalaóp þeirra þegar þau væru særð eða drepin ekki til marks um nokkurn raunhlítan sársauka? - ekki fremur en steinninn fyndi nokkuð til þegar hann væri barinn svo hljóð af því framkallaðist!

Ef ég fer hér með fleipur og geri Kristninni rangt til; með öðrum orðum ef til eru einhverjir Kristnir hugsuðir sem prédikað hafa helgi dýranna en ekki eingöngu hina síáklifuðu helgi mannsins, þá biðst ég afsökunar á ofangreindum ummælum. En hingað til hef ég, líkt og að ofan segir, eigi rekist á þótt ekki væri nema einn Kristinn þenkjara sem boðað hefur guðlega helgi dýranna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

þú hefur algerlega rangt fyrir þér að flestu leyti í þessari grein en rétt að öðru. Byrjum á því rétta: jainismi og búddismi predika algera og afgerandi umhyggju fyrir öllum lífverum, jainismi gengur lengra en öll önnur trúarbrögð að þessu leyti. 

Það ranga; að kristnir menn séu eitthvað á móti dýrum og miskunnsemi við dýr. Prufaðu að tala við eitthvað kristið fólk, t.d zeriaph og lindu {þau eru hér með blogg} og enn betra, prufaðu að lesa bloggið mitt ég hef margoft komið inná það að það ER synd að drepa dýr, og fengið undirtektir við það frá kristnum bloggurum, þegar ég tala um þetta í alvörunni þá fæ ég líka undirtektir frá góðu fólki, kristnu sem trúlausu. Þetta er bara hluti af mannlegu eðli, sumir skilja nauðsyn þess að miskunna en aðrir ekki. Se la vi. Að þurfa að lesa svona lagað einsog það sem þú heldur fram er virkilega óþægilegt, ég ætla að reyna að skamma þig ekki og að fara ekki niðrá þetta plan en í alvöru talað, þú ert að dæma heilan hóp fólks á virkilega fáránlegan hátt útaf einhverjum heimspekingi sem var bilaður!

Það er alltaf gott þegar einhver, sama hver, er að tala um nauðsyn þess að miskunna dýrum og þessvegna fagna ég hluta af þessum pistli en sumt í honum er bara svo ljótt að manni sárnar! Reyndar er það að mörgu leiti galli á kristinni trú að fólk komist upp með þessa ranghugmynd að það hafi ekkert uppá sig að miskunna dýrum en sanntrúað fólk veit að svo er, það eru sömu andlegu lögmál á bakvið kristni einsog eru á bakvið jainisma, búddisma ogsfrv. Múslimar á Íslandi eru meiraðsegja með það á sinni heimasíðu að það sé andstætt Islam að stunda sportveiðar {múslimar útum allan heim stunda sportveiðar en þetta framtak íslenskra múslima finnst mér aðdáunarvert á allan hátt - sýna í verki að þeim finnst það synd að drepa sér til skemmtunar - þannig hugsa líka langflestir kristnir enda er það óþægilegt og mannskemmandi að drepa, hvað þá til skemmtunar!}

svo er annað, reyndin af því hvort að fólk sé almennt að miskunna dýrum, hún stjórnast alls ekki af því hver megintrúarbrögð tiltekins lands eru, það eru ógeðslegar dýrafórnir og allskyns viðbjóður iðkaður af mönnum útum allan heim, sama hver trúin er. Í Kína er viðbjóðurinn einna mestur, bæði hvað varðar framkomu við menn og dýr, en ég held að sanntrúað fólk sé samt ekki að standa fyrir honum.

halkatla, 24.9.2007 kl. 19:50

2 Smámynd: Swami Karunananda

Ég þakka þér kærlega fyrir skelegga athugasemd. Nú hef ég svarið við spurningum þeim sem ég impraði á í greininni; það er til kristið fólk sem heldur því fram að það sé synd að drepa dýr. Og þú hefur auðvitað rétt fyrir þér varðandi það að miskunnsemi, kærleikur o.s.frv. eru ekki bundin við nein ákveðin trúarbrögð; þetta veldur allt á einstaklingsbundinni breytni hvers og eins. Og viðurstyggðin er oft mest þar sem fegurst er prédikað.

Þannig er ég samsettur að ég kæri mig meira um sannleikann en að hafa rétt fyrir mér. Því þakka ég þér heilshugar fyrir að hafa opnað augu mín fyrir hinu sanna í þessu máli.

Kær kveðja.

Swami Karunananda, 24.9.2007 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband