Fagnaðarerindið um The Grateful Dead!

Jamm, ég er þessa dagana (og hef reyndar verið meira eða minna síðastliðið ár) að hlusta á erki-sýru-hipparokkarana í The Grateful Dead. Og verð að segja að þetta er langsamlega sófistikeraðasta, elegantasta, epískasta og fjölbreyttasta rokkmúsík sem nokkurn tíma hefur verið gerð. Ég á eitthvað á bilinu 50-60 diska með skrýmslinu og ekki einn einasti þeirra er hljóðversdiskur - alltsaman læf!

Úthald The Grateful Dead á tónleikum varð snemma þjóðsagnakennt. Lengstu hljómleikarnir með köppunum sem ég á diska af eru hvorki meira né minna en rúmar fimm klukkustundir (fjórir pakkfullir geisladiskar). Það krefst óhemjuorku einungis að standa á sviðinu svo lengi - hvað þá heldur að spila svo lengi, og hvað þá heldur aftur að spila jafn guðdómlega og kempurnar gera alla fyrrgreinda tónleika í gegn! (Illar tungur vilja eflaust meina að téð úthaldsafrek hafi stuðst við kemískar stoðir - en látum það vera).

The Grateful Dead gátu spilað nánast hvaða tegund tónlistar sem er - uppistaðan var auðvitað sýkadelískt rokk, en inn á milli gefur að heyra áhrifavalda svo fjölskrúðuga sem fólkmúsík, blágresi, blús, djass, sál, kántrý og gullaldarrokk frá 6. áratugnum (Sjökk Berrí, m.a.). Og í hinum epísku spunaköflum sem voru aðalsmerki sveitarinnar má heyra greinilegt inflúens af seiðandi indverskum rögum (eins og meðlimir bandsins hafa reyndar oft viðurkennt).

Ólíkt flestum öðrum rokkhljómsveitum, sem böðla saman ömurlegu leirhnoði bara til þess að hafa eitthvað til að gaula með óhljóðunum, þá lögðu The Grateful Dead mikið upp úr textagerð, og voru meira að segja með hirðskáld (Robert Hunter hét sá kappi) til að semja ljóð við tónlistina - já maður getur virkilega talað um ljóð í stað texta! Eftirlætistilvitnun mín í póesíu téðs Hunters eru upphafslínur lagsins "Loser" sem Jerrry Garcia samdi melódíuna við : "If I had a gun for every ace I´ve drawn, I could arm a town the size of Abilene." Tær brilljans!

Fyrir þá sem eru hvítvoðungar í þessum fræðum og langar til að hefja kynni sín af The Dead, þá get ég ekki gert betur en að mæla með tvöfalda disknum "Europe 72" sem, eins og nafnið gefur til kynna, var tekinn upp á hljómleikaferðalagi bandsins um Evrópu árið 1972. Að vísu er nefnd plata ekki það besta sem Deddararnir hafa gert, en fyrir byrjendur er hún tvímælalaust sú aðgengilegasta og heppilegasta; allar hinar feykifjölbreyttu hliðar sveitarinnar njóta sín í snilldarlögum og afburðaspilamennsku. 

Og svo var Jerry Garcia auðvitað stórkostlegasta gítargoð rokksögunnar! Mystískur, sálríkur, ástríðufullur og oft á tíðum andardráttstakandi fallegur!

Góðar Dead-stundir! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband