Ég er orðinn Gnostíker!

Gnostíkin var nk. hliðargrein innan Kristninnar, sem naut allmikillar hylli á fyrstu öldum Kristindómsins, en var að lokum útmáð og bannlýst sem villutrú.

En hví hef ég kosið að endurvekja þennan forna draug og gera hann að hornstein heimsýnar minnar?

Ástæðan er sú að Gnostíkin svarar á sérlega einfaldan og elegantan hátt þeirri spurningu sem ég hef verið að glíma við undanfarna mánuði : hví er svo mikil þjáning í heiminum? - eða, með öðrum orðum : hví er sköpunin svo vond, spillt og rotin sem raun ber vitni?

Og hvert er svo þetta snilldarsvar Gnostíkurinnar? - Það er að sköpunarverkið sé alls ekki smíð þess algóða, miskunnsama og kærleiksríka Guðs sem trúarbrögðin boða. Sá Guð er vissulega til, en sköpunin er ekki handaverk hans.

Nei, þess í stað boðar Gnostíkin að sköpunarguðinn, Jahve Gamla testamentisins, sé rangsúin og brengluð mynd hins sanna Guðs. Jahve er illur, veikgeðja, afbrýðissamur og nýtur þess að kvelja það sem hann hefur skapað.

Tilgangur hinna löngu píslargöngu okkar á Jörðinni er að mati Gnostíkurinnar einfaldlega sá að læra að snúa okkur frá öllu sem tilheyrir hinni spilltu og öfugsnúnu (mis)sköpun Jahves, og öðlast sáluhjálp fyrir tilstilli þekkingarinnar (þess ´Gnosis´ sem Gnostíkin heitir eftir) á hinum sanna, alkærleiksríka Guði, sem er að öllu leyti handanlægur og hefur ekkert að gera með þessa ömurlegu hryllingssmíð sem jarðtilveran er.

Gnostíkin snýr öllu í hefðbundnum Kristindómi á haus, en gerir það á mjög skynsamlegan og rökréttan máta. Þannig verður snákurinn, sem tældi Adam og Evu til ´falls´, að útsendara góða Guðsins, í viðleitni hans til að losa þau skötuhjúin undan járnhæl hins illa Jahves (enda er snákurinn ævafornt tákn fyrir visku, eins og birtist í fjölmörgum trúarbrögðum).

(Glöggir lesendur hafa eflaust veitt því athygli að Gnostíkin útskýrir líka á mjög lógískan og snjallan hátt misræmið hrópandi milli hins viðbjóðslega Jahves Gamla testamentisins og hins dýrlega Alföður sem Kristur kom í heiminn til að boða).

(Og enn gleggri lesendur hafa vafalítið tekið eftir því að Gnostíkin svarar í raun alls ekki spursmálinu um spillt og þjáningaþjakað eðli sköpunarinnar, því það er alfarið óleyst (og að því er virðist óleysanleg) gáta hvernig og hvers vegna hinn algóði, kærleiksríki Guð geti alið af sér aðra eins forynju og erkiskrýmsli og Jahve er.

Svo virðist sem við séum aftur komin á byrjunarreit. - EN - ekki tjóir að hengja haus yfir því. Ég er nefnilega þeirrar trúar að ef maður haldi áfram nógu lengi að leika sér með hugmyndir þá hljóti maður á endanum að hnjóta um eitthvað sem verðskuldar að kallast sannleikur).

Góðar stundir - þar til ég dett niður á eitthvert snjallræði næst!:)

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Er nú sjálf svolítið höll undir Gnostíkina. En varðandi sannleikann - er hann ekki alltaf tímabundinn í hverju máli? Sem sagt,  en ekki nauðsynlegt að endurfinna sannleikann reglulega?

Halldóra Halldórsdóttir, 30.8.2007 kl. 18:20

2 Smámynd: Hafþór H Helgason

Guð skapaði manninn í sinni mynd og því hefur maðurinn frjálsan vilja til sköpunnar sinnar eigin veraldar. Ástæðan fyrir að val mannkynsins leiðir af sér endurteknar hörmungar er að það er ekki á nægjanlega háu vitundarstiga að líta á sig sem eina heild, heldur skiptir sér í sífellt smærri einingar.

Hafþór H Helgason, 30.8.2007 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband