Ég á í mikilli sálarkreppu

Ástæða sálarkrísu minnar er sú að ég er tekinn að efast alvarlega um það sem hefur verið hornsteinn tilveru minnar til margra ára : trúna á Guð.

Orsök efasemda minna um tilveru Guðs er ósköp einfaldlega sú sígilda mótbára að kærleiksríkur og góður Guð myndi aldrei umbera alla þjáninguna og ljótleikann í heiminum. - Ég hef auðvitað eins og flest annað fólk margsinnis heyrt þessa röksemd, en alltaf reynt að réttlæta þjáninguna með því að hún hljóti að stefna að einhverjum endanlega góðum tilgangi sem ég er einfaldlega of glámskyggn til að sjá. En upp á síðkastið er ég farinn að efast stórlega um þetta. Eru þjáningin og ljótleikinn ekki bara einmitt það sem þau virðast vera vorum jarðnesku augum : tilgangsvana, grimm, siðlaus og ósanngjörn, leiðandi af sér ekkert nema að brjóta fólk niður?

Og eftir á að hyggja : er trúin á Guð í nokkru frábrugðin trú barna á jólasveininn og tannálfinn?

Gaman væri að heyra svör trúaðra við ofangreindu. Mér hefur ekki tekist að finna þau.

Kveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Langaði bara að þakka fyrir áhugaverða pistla. Rakst hérna inn núna og er búin að lesa allt í gegn.

Kveðja

Katrín

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.8.2007 kl. 19:47

2 Smámynd: Sigurjón

Mitt svar (sem ég fann sjálfur uppúr fermingu) er að trúin á eitthvað yfirnáttúrulegt er gagnslaus.  Það fást engin svör; einungis getgátur.

Sigurjón, 12.8.2007 kl. 20:38

3 Smámynd: Hafþór H Helgason

Ég mæli með lestri þriggja bóka sem heita Samræður við Guð. Ég var líka í svona sálarkrísu þar til ég rakst á þessar bækur og eftir það breyttist sýn mín á lífið og trúnna algjörlega. 

Hafþór H Helgason, 12.8.2007 kl. 22:56

4 identicon

Af hverju þarf að lenda í sálarkreppu vegna þess að þú trúir ekki á guð, vertu þinn eigin guð og trúðu á sjálfan þig, settu þér markmið, breyttu rétt, lifðu í núinu, njóttu hverrar mínútu eins og hún sé sú síðasta.
Æðri vera eins og guð myndi ekki dæma þig fyrir að trúa ekki en hún myndi dæma þig eftir því hvernig þú verð lífi þínu.

DoctorE (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 14:49

5 Smámynd: Björn Emil Traustason

Ég held að þú ættir að slappa aðeins af, og hugsa um Sjálfan þig og þína nánustu.  . Vegna þess að það gerir enginn annar. En trúin er á Guð er bara jákvæð. Hún heldur okkur saman..

Björn Emil Traustason, 14.8.2007 kl. 23:45

6 Smámynd: Sigurjón

Hún heldur mér reyndar sundur.  Sundur við þá sem trúa.

Sigurjón, 15.8.2007 kl. 01:15

7 Smámynd: Sigurjón

Ég held reyndar að þú hafir hitt naglann á höfuðið þegar þú líktir trú á guð við trú á jólasveininn og tannálfinn.

Sigurjón, 15.8.2007 kl. 01:19

8 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Þú mátt ekki gleyma því Kári að manneskjunni var gefinn frjáls vilji.  Við höfum val um að snúa okkur til Guðs, en við höfum einnig val um að snúa okkur frá Guði. 

Mér hefur alltaf þótt sú hugsun fremur ógeðfelld að þjáning, eymd og pína fólks eigi að leiða til einhvers góðs.  Að þjáningin sem slík eigi að hafa einhvern æðri tilgang.  Að dráp og misþyrmingar eigi að fela í sér leið að einhverju æðra marki.  Ég held að þú hittir naglann á höfuðið þegar þú spyrð hvort þessi atriði séu ekki einmitt það sem þau eru og ekkert annað.

Ég held reyndar að Guð birtist okkur ekki í þjáningu samborgara okkar, heldur birtist hann okkur í því hvernig okkur tekst að vinna okkur út úr þeim hremmingum sem við lendum í. 

Það er svo ótal margt í heiminum sem hefur, þegar allt kemur til alls, ekkert með Guð að gera, heldur grimmd og ljótleika meðal okkar mannanna, það snýst einmitt um að snúa sér að eða frá Guði.

Slæmir hluti henda líka gott fólk, og það hefur ekkert með Guð að gera, þ.e. hann er ekki að reyna okkur í þrautum okkar og vanlíðan, en hann birtist okkur í úrlausninni. 

Mæli með bókinni "Hvers vegna ég?" (Why do bad things happen to good people?)

Reyndar eru þessar vangaveltur hjá þér ekki einfaldar, og væru í raun nægjanlegt efni til þess að halda úti heilu bloggsamfélagi ef út í það er farið.

Góðar kveðjur.

Guðmundur Örn Jónsson, 16.8.2007 kl. 00:51

9 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Það að troða Guði inn í óútskýrðu glufurnar í heiminum gerir það óþarflega flókið og verður manni frekar fjötur um fót í útskýringum heimsins heldur en hitt. Í staðinn er einfaldara að segja "ég veit það ekki" og reyna að finna svarið í staðinn fyrir að segja "Guð gerði það."

Kristján Hrannar Pálsson, 16.8.2007 kl. 13:17

10 identicon

Kæri bróðir og bókaormur.

Ef þú hefur áhuga á því að kynna þér frekar innihald þeirra bóka sem hér hafa verið nefndar þ.e.a.s. Samræður við Guð I - III og Hvers vegna ég?, þá get ég auðveldlega útvegað þér þær. Þú bara lætur mig vita.

Kv.

Heiðar Ingi

Heiðar Ingi (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 22:08

11 Smámynd: Sigurjón

Mér finnst reyndar þýðingin ,,Hvers vegna ég?" vera fremur slæm þýðing á orðunum ,,Why do bad things happen to good people?"

Ég hef líka á tilfinningunni að þeir sem vilja trúa, hlusti ekki alveg með sömu athyglinni og hinir og þeir sem hlusta með athygli trúi ekki alveg... 

Sigurjón, 17.8.2007 kl. 03:32

12 identicon

Sæll Kári, takk fyrir góðar færslur.

Ég er búddisti og trúi ekki á Guð. Búddisminn og trú mín á lögmál lífsins innra með sjálfum mér, m.ö.o. iðkun búddismans hefur gert mér kleift að vera hamingjusamari en ég hefði trúað að væri hægt. Ég hef svosum engin svör við spurningum um þjáningu í heiminum, en ég trúi því og hef mörg dæmi fyrir því að allri þjáningu sé hægt að breyta í ávinninga. Ég vona að þér gangi allt í haginn :)

Theodór (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband