Framtíðarsýn björt og blossandi

(Lítilsháttar inngangur: Þegar ég var að fletta gegnum gömul gögn hjá mér rakst ég á þessa hálf-súrrealísku og erki-kommúnísku félagsfræðiritgerð (já, félagsfræðiritgerð!) úr framhaldsskóla. Slengi ég henni hér með fram, lesendum (vonandi) til nokkurrar kátínu).

 

        Óveðursskýin hrannast upp yfir válegu landinu dökk og drungaleg. Heiðblár og stilltur særinn verður að skólpgráu hafróti sem ýfist sífellt meira uns það verður að öskrandi stórbrimi er sverfur öll björgin við strendurnar niður í öreindir. Ömurlegt gnauðið í storminum þegar hann sveigir til kræklóttar greinar fúinna trjánna í kirkjugörðunum blandast skerandi örvæntingarveini hinna fráföllnu í gröfum sínum er útsendarar andskotans læsa nístingsköldum klóm sínum í hálfrotið hold þeirra og draga þá organdi eins og nýfædda hvítvoðunga og spriklandi líkt og þorska á öngli niður í hryllingsmyrkur heljar. Hungurvofan líður yfir sölnaðar sveitirnar og heggur bændur í blóma lífsins niður eins og hvurn annan ómerkilegan arfa. Sultarvitstola draugar í mannsmynd, með innfallnar kinnar og sturlað augnaráð, skjögra yfir svartmóðuhuld stræti höfuðborgarinnar líkt og skrykkjóttar brúður í tékkneskri lágkostnaðarbarnamynd. Alls staðar blasir við tortíming, dauði og djöfulskapur.

        Er þetta sú framtíðarsýn sem vér óskum niðjum vorum til handa? Er þetta það Frón sem vér viljum skila til barna okkar? Erum vér ekki hugumstórri né prúðhjartaðri en svo? Erum vér slík fúlmenni og ódrættir?

          Ég veit svei mér ekki með hina landa mína, en fyrir mitt leyti er svarið NEI! Nei, nei og aftur NEI!!! Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og meira til svo afkomendur mínir þurfi ekki að þola aðra eins skelfingu og þá sem óhjákvæmilega mun ríða yfir fósturjörð vora ef ráðum mínum verður ekki hlítt!

       Það er aðeins ein leið til að forðast yfirvofandi bræði Belzebúbs, kæru samlandar, og það er að einkavæða!

             
          Einkavæða fyrirtækin! 

Einkavæða landssvæðin!

          Einkavæða hafið!

          Einkavæða vindinn!

          Einkavæða sólina!

          Einkavæða Plútó!

             Einkavæða einstaklingana!

 

            Einkavæða allan andskotann!!!!

 

        Það er löngu tímabært að við vörpum frá okkur eins og ógeðslegum eiturpöddum öllum skrípalegum hugarórum í þá veru að það sé til nokkuð í öllum hinum víða alheimi sem ekki beri að einkavæða.

             - Þetta er framtíðarsýn mín björt og blossandi:

1) Tungumálið sjálft verði einkavætt. Þannig geti fyrirtæki og einstaklingar keypt réttinn til að láta orðið, sem notað er til að tákna einhvern ákveðinn hlut eða verknað, heita í höfuðið á sér allar götur eftirleiðis, eða þar til einhver annar býðst til að borga hærra verð fyrir þau forréttindi. Slíkan rétt verði hægt að kaupa annaðhvort á einstökum málsvæðum ellegar í heiminum í heild. Þegar einhver fjárfestir í þvílíkum rétti verður öllum ritum, fornum og nýjum, að sjálfsögðu breytt til samræmis.

Eftir þessa einkavæðingu mun fólk e.t.v. ekki lengur segja “ég flaug til Englands og sigldi svo til Frakklands” heldur “ég Flugleiðaði til Englands og Eimskipaði svo til Frakklands.” Og það mun kannski ekki segja “fiskurinn var kaldur sem jökull” heldur “Icelandic Seafoodið var The Atlanta Cryogenics Corporationað sem Jarðfræðingafélag Hornstrendinga”. Og upphafið að Íslandsklukkunni, sem nú hljóðar svo:

 

       "Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka."

 

         -mun máski hljóða svo:

 
        "Sú var Framsóknarflokkurinn, Ómar Ragnarssonar í Eymundssonum, að Hið íslenzka þjóðvinafélaga Svenska Neo-nazister Förbundet Donald Trumpaði aðeins Alþjóðasamband Vedantista-a The International Socialist Association sem Alþjóðasamtök kvikmyndagagnrýnenda-in varð til The First National Bank of the United States of America. Það var Rolex."

 

            Þetta má skýra á þessa vegu: Framsóknarflokkurinn hefur keypt réttinn á orðinu “tíð”, enda eru það helst sveitamenn sem taka sér það í munn; Ómar Ragnarsson hefur keypt réttinn á “segja”, enda er nefndur maður þekktur fyrir að hafa frá mörgu að segja; Eymundsson hefur tryggt sér réttinn á “bækur”, Hið íslenzka þjóðvinafélag á “íslenskur”; Svenska Neo-nazister Förbundet á “þjóð”; Donald Trump á “eiga”, enda á sá maður giska margt; Alþjóðasamband Vedantista á “einn”, enda aðhyllast Vedantistar þá kenningu að allt sé Eitt; The International Socialist Association á “sameign”; Alþjóðasamtök kvikmyndagagnrýnenda á “meta”; The First National Bank of the United States of America á “fé” og Rolex á “klukka”.

        Orðið “aðeins” helst óbreytt, enda vill eðlilega enginn láta svo smáskítlegt orð heita í höfuðið á sér.

 

       2) Engin gæði á jörðu verði látin áfram hírast í hryssingsviðri sameignar. Þannig verði sjálfu andrúmsloftinu komið í skjól einkaeignar og allir menn látnir greiða gjald til þeirra sem veifað geti plaggi uppá að þeir eigi súrefnið í loftinu. Þeir sem ekki geta staðið skil á gjaldi þessu fá heldur ekki að draga lífsandann.

 

      3) Æviferill manna verði einkavæddur. Þannig verði haldið uppboð á ungabörnum örfáum dögum eftir að þau fæðast svo fyrirtæki geti keypt þau sér til eignar og stýrt lífshlaupi þeirra frá vöggu til grafar. Á þennan hátt getur t.d. Skólpræsafélagið s\f keypt sér kippu af krógum til að þræla í ræsunum fyrir ekkert kaup alla ævi, í stað þess að þurfa að standa í endalausum og útjaskandi samningaviðræðum við heimtufrekt starfsfólk (eða vinnueiningar öllu heldur, afsakið).

 

      4) Lögin verði einkavætt. Þannig munu það ekki verða misvitrir pólitíkusar sem annast lagasetningu í framtíðinni, heldur munu einstaklingar og fyrirtæki einfaldlega borga fyrir að vissar greinar verði settar inn í löggjöfina. Nú óska tveir aðilar eða fleiri eftir að lögfestar verði greinar sem stangast á hver við aðra, og skal þá sá fá sína lögfesta sem viljugur er að greiða hæsta verðið fyrir.

          Við skulum taka ímyndað dæmi um hvernig þessi tegund einkavæðingar gæti gengið fyrir sig: Jóel Engilbertsson, 45 ára feitlaginn framkvæmdastjóri með rauðbirkið hár og rykgrá augu, þráir að þurrka út visst skordýr er hann telur standa viðskiptahagsmunum sínum fyrir þrifum. Jóel vill hins vegar ekki eiga á hættu að verða stungið í steininn fyrir að má þennan blett á tilveru sinni út, og því notar hann hluta af hinum geypilegu fjármunum sínum til að láta smokra eftirfarandi klausu í sakarlöggjöfina:

 

          "Grein 65.1.a, undirgrein 12.b: 45 ára feitlögnum framkvæmdastjórum með rauðbirkið hár og rykgrá augu skal heimilt að myrða hvern þann er þeim þóknast miðvikudaginn 13. október árið 2007 e.kr. klukkan 20:10."

 

             Eftir þennan gjörning er það einfaldasta og öruggasta mál í heimi fyrir Jóel að fara heim til pöddunnar og stúta henni á tilsettum tíma.

 
   
    - Sjá, lúnir landar mínir! Óveðursskýin verða hvínandi hvít á ný! Hafið verður aftur jafnt stillt og letidýr sem búið er að pumpa pakkfullt af slævandi lyfjum! Myrkrahöfðinginn sleppir krímugum krumlunum af náum vorum! Sultarvofan gufar upp jafn skjótt og sósublettur af skyrtu í bala fullum af einhverju undraþvottaefninu! Fálki Frónar grípur með knífskörpum klóm sínum um eitraða örina sem lagði hann vesæl að velli og rykkir ruslinu úr hágöfgu hjarta sínu og breiðir út brandhvassa vængina og skýst upp til skýja! Fálkinn flýgur á ný! Föðurland vort lifir! Landið er aftur orðið fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar blika eins og . . .  einhver andskotinn! Sjá, hetjur vorar eru ekki dauðar! Þarna rísa þær úr gröfum sínum ein á fætur annarri, og það meira að segja í sömu röð og þær gylla bókstafina í sögubókum vorum niðja sinna: fyrstur birtist Ingólfur Arnarson, svo Egill Skallagrímsson, þá Snorri Sturluson, því næst Hallgrímur Pétursson og loks Jón Sigurðsson. Allir líta ljósberarnir óblendnum aðdáunaraugum á fósturjörð sína; öllum vöknar þeim um hvarma við að líta dýrðina; allir opna þeir mektarmunn sinn upp á gátt og æpa í einum kór súrrandi sigurópið; gleðiorgið sem glymja mun í hlustum heimsins þá er dómsdagur rennur loks upp bjartur og blossandi eftir dökka og dreyra hroðna vargöldina og jörðin baðast í glimrandi geislum almættisins og mannssonurinn stígur niður af himnum í annað sinn, kyrtli sveipaður og svífandi á gullroðnu guðdómsskýi; úr brunndjúpum börkum dáindissona Íslands drynur eitt einhljóma herlegheitakall – herlegheitakall voldugt sem vængjasláttur undurhvítrar álftarinnar þar sem hún þýtur í mörgþúsund metra hæð áleiðis til suðrænna sólarstranda, hörfandi af hyggindum sínum undan fimbulvetri frónar með eljufulla einbeitinguna logandi og leiftrandi úr glyrnunum er glampa sem mánablik á mjallhuldri tjörn uppi á tígullegri háfjallaheiði; herlegheitakall espandi indælt sem lauflagður könglakrans á ilmandi viðarhurð værðarlegs timburkofa með taugaslakandi bál brennandi í arni í óróaskreyttri stofu og vetrarliljur vaggandi þýðlega við þekkan hörpuslátt af himnum á sólmáluðum svölum, meðan sælan umvefur allt á fannþöktum fjallstindinum um stjörnulýsta og stafkyrra jólanóttu – og þetta svimandi sæluhróp fyllir hrímuð hjörtu alls er lifir af eldi gæskuríks guðs og bræðir brátt sem elding utan af þeim kremjandi klakaböndin svo urrandi alsælan og gutlandi gleðin sendast upp úr sinnisdjúpunum skjótt sem skotflaugar og flóa út fyrir öskju andans og lyfta á brims síns löðri sótugri sálinni heim í himinrann, þar sem lindir lambsins vökva skrælnaða skorpu hennar og drepa dúnmeyrt, safavellandi, sunnubjart og unaðslostætt aldinkjötið sem innan í leynist úr lamandi dróma sínum; þetta heróp himneskrar dýrðar endurómar um öll byggð ból víðrar veraldar, og það hljóðar svo:

 


Lifi einkavæðingin!

 

     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafþór H Helgason

Þessi einkavæðingar framtíðarsýn er ekki ósvipuð framtíðarsýn Andra Snæs í LoVe Star.

Hafþór H Helgason, 7.8.2007 kl. 21:35

2 Smámynd: Swami Karunananda

Það er athyglisvert. En ekki er hægt að væna mig um að stela hugmyndum frá Andra Snæ, þar sem ég hef í fyrsta lagi ekki lesið bókina sem þú nefnir, og í öðru lagi ritaði ég ofangreinda ritgerð árið 1998, nokkru áður (hygg ég) en Andri Snær reit sína bók.

Swami Karunananda, 7.8.2007 kl. 23:45

3 Smámynd: Þarfagreinir

Ég get vottað fyrir þetta ártal, þar sem ég man eftir ritgerðinni. Fékkstu svo ekki 9 - 10 fyrir þetta bull, bévaður?

Þarfagreinir, 8.8.2007 kl. 01:03

4 Smámynd: Swami Karunananda

Mig minnir að ég hafi fengið 9, jú. :)

Swami Karunananda, 8.8.2007 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband