Hégómi, aumasti hégómi!

Enginn sem horfir allsgáðum og spekingslegum augum á tilveruna getur komist undan því að telja alla hluti undir sólinni helberan hégóma og fánýti.

            Íhugið málið.. Hvað eru vorar sorgir og gleði, sigrar og ósigrar þegar vér erum sáluð og allir sem þekktu oss sömuleiðis komnir undir græna torfu?

            Einstaklingar, kynslóðir og siðmenningar koma og fara og skilja ekkert eftir  til minja um sig.

Og sólin sjálf, sem virðist ímynd eilífðarinnar vorum skammvinnu augum – hún mun á endanum verða uppiskroppa með eldsneyti og þjappast saman í gráa dvergstjörnu, dauðan grjóthnullung á tilgangslausu sveimi í óravíddum himingeimsins.

             Veröldin veltist til og frá og hingað og þangað og upp og niður, en á endanum skiptir veltingurinn ekki minnsta máli.

            Allt er forgengilegt. Því skiptir ekkert nokkru einasta máli í hinu stærra samhengi hlutanna.

            Ýmsar heimspekiþenkjandi mannverur vilja meina að þótt allt sé vissulega tilgangslaust í eðli sínu, þá geti maðurinn glætt tilveruna merkingu, t.d. með því að líta á heiminn sem saklausan leik þar sem enginn tapar og enginn vinnur þegar upp er staðið – það eina sem skipti máli er að leika þann eilífa gleðiríka leik sem jarðlífið er.

            Vissa samúð má hafa með ofangreindu sjónarmiði. En á endanum ristir það ekki nógu djúpt að telja veröldina saklaust leiksvið, því fyrr eða seinna fær maður leið á því að leika sér. Og þegar sæluvímu leiksins þrýtur, hvað bíður manns þá annað en gamli, grái, tilgangssnauði veraldarveltingurinn, hringekja hégómans?

            Nei, við verðum að rýna dýpra og fastar í rúnir og rök heimsins!

Fáeinir karlar og konur hafa í sögunnar rás talið sig hafa komist í samband við yfirlægan veruleika sem einkennist af altækum kærleika og algjörri visku – og öllu fremur þeirri bjargföstu sannfæringu að allt hið forgengilega þjóni ómetanlegum tilgangi sem tímabundin birtingarmynd hins handanlæga en þó ídveljandi raundóms, sem er hið eina verulega í veröldinni, þegar öll kurl eru komin til kumls.

Ofangreindur veruleiki hefur verið nefndur ýmsum nöfnum á mismunandi stöðum og tímum: Guð, Sjálfið, Eilífðin, Nirvana, Andinn o.s.frv. Eftirleiðis í þessum pistli mun ég nota orðið Andi um þessi hinstu reginrök heimsins.

Og hér erum vér komin að kjarna ´tilgangsleysiskenndarinnar´ sem greinarkorn þetta hófst á að útlista. Það er veraldleg hugsun, þenking sem einskorðast við tíma og rúm, sem æðrast yfir markmiðsleysi og forgengileika allra jarðneskra hluta, vegna þess að í tíma og rúmi per se er allt vissulega á hverfanda hveli, og enga stefnu að sjá neins staðar. Tilgangurinn með veröld stundleikans opinberast einungis þeim augum sem eygja hina himinfenglegu staðreynd, að heimur tíma og rúms sé í raun dýrðleg og kærleiksþrungin myndbirting æðri afla leyndra.

            Og hvaða markmið öðlast mannlífið í þessari dásemdar eilífðarsýn? Jú, stefnumið vort verður einfaldlega að hjálpa sjálfum oss og sem flestum öðrum að smokra sér úr krumlum hins jarðlega og fánýta, og fleygja sér í feginsfaðm hins himneska og alnýta.

            Vert er að taka fram að þessi viðleitni, að hjálpa sem flestum öðrum verum að upplifa Himininn, felur nauðsynlega í sér allar hinar minniháttar tilraunir til félagslegra umbóta – ekki er hægt að ætlast til þess að sveltandi og útþrælkaður maður hafi mikið rúm í sínu sálartetri til að íhuga Andann.

Vér erum stödd hér á Jörðu til að læra hve fánýtir allir jarðneskir hlutir eru þegar þeir eru slitnir úr samhengi við Andann – en fánýtiskennd þessi lærist oss ekki með því að hafna heimi efnisins, heldur þvert á móti með því að sökkva okkur á bólakaf ofan í hann. Það er ekki fyrr en eftir ótal jarðvistir, þegar vér höfum étið okkur fullsödd af mylsnum jarðneskra upplifana, sem vér finnum okkur knúin til að snúa baki við öllu jarðnesku kruðeríi og leita leiðarinnar til tertugerðarinnar á Himnum á ný. En þegar téð Himnabakarí er fundið, þá finnum vér oss knúin til að koma aftur til Jarðar og útdeila ódáinskökunni, sem vér höfum fengið í Guðaheimum, með sem flestum hungruðum meðsystkinum vorum á storðu.

Því má segja að vér höfnum Jörðinni aðeins til að snúa til hennar aftur – þegar vér höfum yfirstigið hana fyrir fullt og allt, séð í gengum blekkingu fallvaltleikans og öðlast skýra sýn á Andann sem að baki Jörðinni dvelur.

Og nú eygjum vér loksins hið súblíma og algjöra andsvar við tilgangsleysiskenndinni sem tæpt var á í upphafi pistils: Andinn heldur áfram að vera til þótt öll form, þar með talið sólkerfið sjálft, líði undir lok; því þegar formið sem Andinn íklæðist hættir að falla að þörfum Hans og verður spennitreyja í stað þess að vera passleg flík, þá afklæðist Andinn forminu (sem eyðist þar með) og kýs sér annað sem betur hentar vexti Hans.

 

           


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafþór H Helgason

Kurt Vonnegut kom með ágæta setningu sem lýsir þessari eilífu hringrás, þegar geimverur sem koma frá stað utan tíma og rúms gera sögupersónu hans ljóst að allt sem hefur nokkuð tíman gerst og mun gerast hefur þegar gerst, "So it goes"

Hafþór H Helgason, 29.7.2007 kl. 14:14

2 identicon

Sæll Frændi,

 Gaman að rekast á þig í rafheimum! Skemmtilegar pælingar hjá þér :)

Kv,

Eyjólfur frændi 

Eyjólfur V Ingólfsson (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 23:08

3 Smámynd: Swami Karunananda

Blessaður, frændi sæll.

Bið að heilsa konu og börnum - vonandi farnast öllum vel.

Kveðja,

Kári

Swami Karunananda, 30.7.2007 kl. 01:24

4 identicon

Hæ ég var að lesa pistlana þína þú ert mjög góður penni og hugsar greinilega djúft og hefur þann hæfileika að geta sett saman mörg lög í sögum þar sem maður getur lesið eina sögu en samt einnig fundið fyrir öðrum lögum sögunnar. Ég hef svolítið komið nálægt leiklist í gegnum tíðina og hlustað á fyrirlestra hvað það varðar og einnig lesið svolítið af leikverkum. Ég veit ekki mikið en eitt veit ég að maður sem skrifar og hugsar eins og þú gæti orðið stórkostlegt leikskáld því þú hefur þennan frásagnarhæfileika og málfar sem margir leita að allt sitt líf en hjá þér er það bara þarna. Ég hvet þig til að prufa að skrifa leikrit ef þú hefur ekki gert það áður því þú hefur svo sannarlega hæfileika til þess.Allt hefur sinn tilgang og erfiðleikar eiga það til að aðstoða mann á lífsleiðinni..

bestu kveðjur..

Elín (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 01:33

5 Smámynd: Sigurjón

Ég verð að taka í sama streng og Elín.  Á stundum eru skrif þín allt að því snilldarleg Kári og hafðu þakkir fyrir það.  Ég hafði hreina unun að því að lesa pistling þennan.

Varaðu þó þig á læknum.  Hann getur verið dýpri en þú heldur.  Fullyrðingar þínar um guðdómlegar tilvistir himnanna eru tálsýnir einar, sé miðað við reynzlu okkar veika mannkyns.  Pælingar um hvort eitthvað sé þarna fyrir handan og þá hvort það er algott og blessað eru ekki að ósekju, en verð skal höfð að gildi.  Slík trú á eitthvað sem á erfiðara með að sýna sig en svo að allir geti séð, er varhugaverð og getur leitt til slæmsku, eins og dæmin sanna.

Ekki er þar með sagt að slíkt sé af hinu slæma, en frekar að betri sé krókur en kelda í þeim efnum.  Hins vegar er það svo að þeir sem trúa með bindi fyrir augum eru oft miklu hamingjusamari en þeir efasemdarmenn sem geta ekki samþykkt neitt sem ekki sézt á augljósan hátt.  Ég veit að ég er einn af þeim.  Ekki get ég sagt með góðri samvizku að ég sé mjög hamingjusamur maður, þó ég hafi notið lystisemda lífsins í hvívetna.

Ég bíð svo enn eftir svörum við athugasemdum mínum við ágæti mannsins.  Mér þætti gaman að sjá niðurstöður rannsókna þinna á því efni.

Skál! 

Sigurjón, 30.7.2007 kl. 03:02

6 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Eða eins og Kári skrifar sjálfur: "Nei, við verðum að rýna dýpra og fastar í rúnir og rök heimsins!" Sé það gert verða allar þessar hugmyndir um himnabakarí og eilíft líf andans vægast sagt rökþunnar og ólíklegar. Þakka samt fyrir skemmtilega grein.

Kristján Hrannar Pálsson, 30.7.2007 kl. 08:50

7 Smámynd: Swami Karunananda

Sæll Sigurjón,

Ég er því miður búinn að gleyma spurningu þinni um ágæti mannsins. Gætirðu séð þér fært að endurtaka hana?

Kveðja,

Kári

Swami Karunananda, 30.7.2007 kl. 15:17

8 Smámynd: Sigurjón

Alveg sjálfsagt:

,,

Er þetta eitthvað skylt ágæti mannsins?  Þ.e. hvert lokatakmarkið er?

Ég á bágt með að sjá að þjáning eigi sér einhverjar aðrar ástæður en að tortíma sjálfri sér.  Þ.e. að þjáning kallar sjálfkrafa á lausn á sjálfri sér og þar með liningu sinnar sjálfrar.  Er maðurinn sumsé dæmdur til að leita stöðugt að liningu þjáningar sinnar, eða finnur hann á endanum lausn á henni endanlega?"

Þessi athugasemd birtist við síðustu netgrein þína. 

Sigurjón, 31.7.2007 kl. 01:47

9 Smámynd: Swami Karunananda

Sæll Sigurjón.

Eins og fram hefur komið í fyrri netgreinum mínum þá álít ég að allir hlutir skilgreinist af andstæðu sinni. Þannig getur hiti aðeins verið til ef kuldi er til, gleði getur einungis verið til ef sorg er til, ljós getur einvörðungu til ef myrkur er til - og velsæld getur aðeins verið til ef þjáning er til.

Mín skoðun er semsé sú að maðurinn losni aldrei alfarið við þjáninguna, vegna þess að lífinu getur ekki undið fram á neinn annan hátt en í sífelldri víxlför milli andstæðnanna. Við sveiflumst ævinlega milli ljóss og myrkurs, milli þrár og fyllingar - og milli þjáningar og hamingju. Með öðrum orðum : þegar við höfum fengið nóg af einni andstæðunni (eins og t.d. hamingjunni) þá förum við að þrá mótsetninguna - vegna þess, sem fyrr segir, að ekki er hægt að skynja hluti eins og hamingju og gleði nema með því að upplifa fyrst móthliðar þeirra, þ.e. sorg og þjáningu. - Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, og enginn veit hvað misst hefur fyrr en átt hefur! (nánari útlistun á síðari setningunni : án þess að eignast hlutinn veit maður ekki að maður er að fara á mis við andstæðu hans).

En ekki er þó þar með sagt að alla þjáningu megi setja undir einn hatt. Til eru mismunandi stig þjáningar og birtast þau í samræmi við þroska tiltekinnar sálar. Þannig er vanþróuð sál algerlega upptekin af eigin þjáningu, en þroskaðri sál er farin að taka þjáningar annarra manna inn á sig, og enn þróaðri sál er farin að taka þjáningar dýranna, og raunar allra lifandi vera, inn á sig líka.

Hér er einnig gagnlegt að rifja upp þann lærdóm að gangur lífsins er ekki lokuð hringför, heldur hringstigi (spírall). Því vinnur hin þroskaða sál öðrum lífverum til gagns og leitast við að lina þjáningar þeirra og færa þeim hamingju, svo þær geti lokið einni hringrásinni (þ.e. einni hringrás sveiflunnar milli (m.a.) þjáningar og hamingju) og hafist svo handa við þá næstu. - Og munum að lægsta þrepið á hverri hringrás er ætíð á hærra stigi en hæsta þrepið á hringrásinni þar á undan. Þannig verður hamingjan dýpri og þjáningin göfugri með hverri hringrás sem líður.

Vona ég að mér hafi tekist að svara spurningu þinni á viðunandi hátt.

Bestu kveðjur,

Kári

Swami Karunananda, 1.8.2007 kl. 22:57

10 Smámynd: Swami Karunananda

Sæll Sigurjón,

Í fyrri svargrein minni gleymdi ég sjálfri grunnniðurstöðu þeirra hugleiðinga sem í henni birtust - en hún er þessi: við sitjum uppi með þá þversögn að þjáningin er óhjákvæmileg, en samt ber okkur að berjast gegn henni!

Kveðja,

Kári

Swami Karunananda, 1.8.2007 kl. 23:18

11 identicon

Sæll Kári

Veit ekki en hvernig ég rakst inn á þessa slóð en mjög athygli verð skrif og þankar. verð hérna inni eitthvað áfram, mikið að lesa, læt svo kannski heyra í mér.

Já og takk fyrir pistlana

Magni

magni (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 08:50

12 identicon

Hefurðu verið að lesa Martinus?

Ef ekki, þá hefðirðu ugglaust gaman af því.

Kveðja,

Þorgeir

Þorgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.8.2007 kl. 14:47

13 Smámynd: Swami Karunananda

Þú er glöggur, Þorgeir! Ég keypti nefnilega í fyrra alla ´Livets Bog´ eftir Martinus (þrjú hnausþykk bindi, hvert um sig yfir 1000 bls.!)  og hef lesið meirihlutann af því. Lesturinn sækist fremur seint þar sem danskan hans Martinusar er ansi fornleg, en ég býst við að verða búinn að klára öll bindin áður en árið er á enda.

Ef þú ert með einhver komment á skrif Martinusar þætti mér gaman að heyra þau.

Kær kveðja,

Kári 

Swami Karunananda, 4.8.2007 kl. 18:53

14 Smámynd: Sigurjón

Þetta er bara ágætis svar hjá þér Kári og hafðu þökk fyrir það.

Sigurjón, 6.8.2007 kl. 03:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband