Búddisminn - trú fyrir trúlausa!

Ekki getur allt fólk sætt sig við tilhugsunina um að til sé Almætti. Í sumra augum er trúin á Guð svipuð trú barna á jólasveininn. Og svo logar allt í erjum milli hinna trúuðu og hinna vantrúuðu.

En hinn mikli Búdda myndi hafa sagt : ´þetta er allt saman vitleysa og orkusóun. Allar rökræður um Guð eða sálina eða önnur álíka fenómen er tóm tímaeyðsla. Eða hverju er manneskjan bættari til eða frá þótt hún trúi á einhvern yfirskilvitlegan veruleika eður ei? Karp um tilvist og eðli frumspekilegs raundóms er áþekkt því að velta því fyrir sér hver kveikti í húsinu þegar það brennur - það eina sem gildir er að koma sér út úr brandvítinu!"

En ´að koma sér út úr hinu brennandi húsi´ er myndlíking Búdda fyrir það að losna úr greipum hinnar þráorsökuðu þjáningar og upplifa þann altæka kærleika og visku sem nefnist ´Nirvana´.

Er Nirvana til? gætu sumir spurt. Er það ekki bara enn eitt frumspekibullhugtakið, áþekkt Guðskonseptinu? - Og svarið er : vissar manneskjur hafa í aldanna rás talið sig hafa komist í snertingu við algjöran, skilyrðislausan kærleika og visku. Ef við trúum að fólk sé upp til hópa heiðarlegt og sannsögult, þá virðist tilhæfulaust að vísa vitnisburði ofantéðra mannvera á bug, einungis vegna þess að okkur hugnast ekki það sem þær hafa að segja.

Og munum að Búdda bað okkur ekki að trúa á Nirvana, líkt og Kristindómurinn fer fram á að við trúum á fórnardauða Jesú.  Eins og meistari Búdda sagði lærisveinum sínum (ekki orðrétt, en í essensu): ´ekki bið ég ykkur að trúa því sem ég boða bara vegna þess að ég segi það, né sakir þess að þið hafið heyrt einhverja aðra segja það, né vegna þess að þið hafið lesið það í helgiritum eða öðrum bókum, né sakir þess að ykkur finnst það skynsamlegt og rökfræðilega sannfærandi, né vegna þess að það kitlar eyrun og virkar aðlaðandi - nei, það eina sem ég vísa til er prívatleg, bein, milliliðalaus reynsla hvers eins og einasta ykkar.´

Við getum ekki öll verið sammála um tilvist Guðs; eflaust mun fólk rífast um það efni um aldir og árþúsundir héreftir sem hingaðtil. En við getum öll fallist á að kærleikur og viska eru eftirsóknarverðustu hnoss í heimi, sama hve ólík lífsviðhorf við höfum tamið okkur að öðru leyti. Og inntak Búddismans er einmitt kærleikur og viska, sem bein og óræk reynsla hvers einstaklings, en ekki frumspekilegar þrætubækur í stíl við það sem önnur trúarbrögð eru stútfull af.

Því árétta ég titil þessa greinarkorns með nokkuð öðru orðalagi : Búddisminn er trúarbrögð fyrir þá sem vilja ekkert með trúarbrögð hafa.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GeirR

Sæll vinur

Þakka þér fyrir frábært greinasafn um Búddisma. Þú ert ótrúlega hagur í meðferð íslenskunnar og fær í að útskýra fræði og hugtök sem eru okkur vesturlandabúum framandi.

Ég fór ekki að átta mig á  þessari hugmyndafræði fyrr en eftir að hafa farið til Tælands og eftir að reynt að skilja og lesa mér til um bakgrunn þessarar brosmildu og fögru þjóðar sem hefur sterkar rætur í Búddisma.

Það sem kom mér mest á óvart í þessum pælingum mínum var ofmat okkar vesturlandabúa  á heilanum sem lífæri !!  Heilinn er lífæri sem við verðum að ná stjórn á ekki síður en öðrum lífærum eins og höndum og fótum. Við þurfum að læra að skoða hugsanir okkar og losa okkur við neikvæðar og gagnslausar hugsanir. Við þurfum að þjálfa og aga heilann eins og öll önnur lífæri.

Annað sem ég fór að átta mig á var hættan sem stafar af því að að láta drauma og þrár stjórna tilverunni.  Linnulaust er okkur talin trú um að það sem við höfum sé ekki nógu gott. Stöðugt er reynt að telja okkur trú um að  launin, starfið, íbúðin, bíllinn líkaminn og allt sem við  höfum sé ekki nógu gott. 

Að hamingjan sé falin í endalausum draumum um breytt hlutskipti en ekki í því að njóta þess sem maður þó hefur.

 Fortíðinni verður ekki breytt og hugsanir um framtíðina breyta henni ekki. Það eina sem við ráðum yfir er augnablikið.

Læt þetta nægja að sinni og hvet þig til að halda áfram að skrifa þína góðu pistla um áhugaverð málefni

Kveðja

Geir

GeirR, 20.7.2007 kl. 18:28

2 Smámynd: Sævar Finnbogason

Þaka þér fyrir áhugavert blogg. Ég verð að taka undir Geir að ritstíll þinn gerir pælingarnar enn áhugaverðari. Mér finnst einmitt ritstílnum mjög ábótvant á hinum íslenskum blogsíðum.

Ég hefði nú ekki sagt "Búddisminn er trúarbrögð fyrir þá sem vilja ekkert með trúarbrögð hafa." því mér finnast búddismi ekki beinlínis trúarbrögð en við vesturlandabúar verðum þó kanski að nota þetta hugtakvegna skorts á öðrum sem gætu skilist :)

Endilega haltu áfram skrifunum.

 Sævar

Sævar Finnbogason, 22.7.2007 kl. 13:24

3 identicon

Ég sé heiminn allan í toppum og botnum.

Ég get ekki lýst honum öðruvísi.

Innst inni er mér nákvæmlega sama hverjir hafa skrifað greinar eða bækur um það sem er mikilvægast:

Gerðu engum það sem þú vilt ekki að hann geri þér.

Trúarbrögð hafa verið sköpuð og bækur skrifaðar um þetta efni, þar sem síns tíma "drengir" hafa lýst hvernig þeir skilja og kjósa að lesa úr okkar allra ósk - frið til að eiga frelsi.

Þetta er að sjálfsögðu mín túlkun á Bilbíunni, Thorunni, Koraninum eða öllu því sem einhver hefur skrifað um það heilaga í okkur öllum.

Kveðja, Kristbjörg

Kristbjörg (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband