Endanleg lok eymdarinnar

ÉG ætla að hefja greinarkorn þetta á fullyrðingu sem mörgum ykkar mun eflaust þykja hlægileg fjarstæða: "Öll þjáning er til þess að láta hinn þjáða vita að nú sé tími til kominn að enda þjáninguna."

Ofangreinda staðhæfingu mætti setja fram með nokkuð öðrum (en þó eðlisskyldum) hætti: "Öll þjáning er vakningarkall frá Guði um að sigrast á hinni einu sönnu rót þjáningarinnar, sem er helsið í búri "hins tillærða sjálfs"."

Hér gefst ekkert tóm til að skeggræða í löngu máli hvað felst í hugtakinu "hið tillærða sjálf," enda er það umfjöllunarefni seintæmt. Aðeins skal á það bent að nefnt hugtak byggist á þeirri áráttu (sem flestu fólki er eðlislæg allt frá bernsku) að samsama sig "hug- og líkama". Samsemd þessi felur í sér, en takmarkast ekki við, að maðurinn telur sig vera það samansafn þjóðfélagslegrar innrætingar annars vegar og áunninna (og nú ósjálfráðra) tilhneiginga úr æsku hinsvegar, sem byrgir sýn á hið sanna og ódauðlega Sjálf mannsins, líkt og skýin skyggja á geisla sólarinnar.

Sá/sú, sem hefur öðlast þann skilning sem tæpt var á í upphafi greinar, að öll þjáning þjóni því augnamiði að vekja oss til vitundar um vora sönnu og himnesku náttúru, getur aldrei örvænt eða æðrast, sama hvernig veröldin veltist. Hann/hún sér hið guðdómlega plan með þjáningunni og fylkir sér að baki áformi hinnar miklu Móður um endanlega útrýmingu eymdarinnar.

En er ekki ákveðin þversögn fólgin í þessu öllu saman? Úr því þjáningin er ætíð til góðs á endanum, hví þá að hafa nokkra samúð með þeim sem við kröm og eymd búa? Er ekki bara best að láta þjáninguna hafa sinn gang?

Þessu er til að svara að "sjáandinn" (en svo getum við kallað þá mannveru sem vaknað hefur upp til vitundar um gildi og takmark þjáningarinnar) missir ekki hætishót af löngun sinni til að lina eymd annarra. Munurinn á "sjáandanum" og "ósjáandanum" (ef við getum brúkað svo ljótt orð) felst einvörðungu í því að sá síðarnefndi leitar allskyns gervilausna til að lina þjáninguna, en sá fyrrrnefndi ræðst beint á rót vandans, sem er samsömunin við "hug- og líkama", þ.e. "hið tillærða sjálf".

En nú er freistandi að spyrja: úr því allar félagslegar umbætur stemma ekki ána að ósi, og teljast því á endanum til gervilausna, eru þær þá ekki einbert fánýti?

Fjarri fer því!

Að sjálfsögðu er það svo að ef einhvern hungrar, þá gefum við honum að borða; ef einhver er heimilislaus, þá skjótum við yfir hann skjólshúsi; ef ójöfnuður er talinn of mikill í samfélaginu, þá reynum við að jafna hann, o.s.frv. Allt er þetta órofa hluti okkar æðra eðlis, og ágætt svo langt sem það nær. En við megum aldrei falla í þá gryfju að ruglast á slíkum "bráðabirgðalausnum" og hinni einu raunhlítu lækningu þjáningarinnar, sem er að binda enda á samsömunina við "hið tillærða sjálf". Að öðrum kosti er hætt við að við skiptum aðeins út einni eymdinni fyrir aðra, þannig að í stað þess að hungra og þyrsta í bókstaflegum skilningi þá fer fólk að hungra og þyrsta í að sanka að sér sem mestum veraldargæðum, og annað álíka.

(Merkilegt er annars hve illa mannkyninu vegnar yfirleitt að feta hinn gullna meðalveg öfganna í efnislegu tilliti – ýmist ríkir ömurleg örbirgð eða hóflaust hóglífi. En hér erum við komin út fyrir meginefni pistilsins.)

En nú er von að glöggir lesendur spyrji: allt þetta tal um lausnina úr búri samsemdarinnar við "hug- og líkama" er gott og gilt. En hvernig á að fara að því, á konkretan og praktískan hátt, að öðlast þessa frelsun úr krumlum "hins tillærða sjálfs" sem höfundur fullyrðir að sé orsök allrar þjáningar á jarðríki?

Hér getur höfundur ekki gert betur en að vitna í spakmæli eftir ónefndan speking austrænan: "Vondu fréttirnar eru þær að engin leið er til að dyrum Frelsisins. Góðu fréttirnar eru þær að dyrnar hafa aldrei verið lokaðar..."

Kári Auðar Svansson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Gríðar vel skrifuð og skemmtileg grein. Þetta blogg mun ég kíkja aftur á.

Kristján Hrannar Pálsson, 17.7.2007 kl. 11:39

2 identicon

Búdda vill meina að öll þjáning eigi sér rót í þrá mannsins.  Það að vera aldrei fullnægður, óánægður með hlutskipti sitt etc.  Til að losna við þjáninguna þarf að læra að lifa í núinu án bindingar við tíma, framtíð fortíð.  Í núinu, akkúrat núna skortir þig ekkert.  Þar er þjáningin ekki til.  Þjáningin er bundin því sem skeð hefur eða á eftir að ske, nema um líkamlegan sársauka sé að ræða að sjálfsögðu.

Jón Steinar Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 13:57

3 Smámynd: Swami Karunananda

Kæri Jón,

Ég fjalla einmitt um þrána í allrafyrsta bloggi mínu, sem ber hina viðeigandi yfirskrift ´þráin er þjáninganna móðir´. Þar held ég fram sjónamiðum mjög í ætt við þau sem þú tæpir á í athugasemd þinni. Vísa ég þér og öðrum áhugasömum um að kíkja á nefnt blogg.

(En því miður er það svo að einungis birtist listi yfir fimm seinustu færslur hægra megin á bloggsíðunni minni, en öll bloggin frá upphafi eru hins vegar birt í einni bunu vinstra megin síðunnar. Því þarf að hafa töluvert fyrir því að fletta upp á þeim færslum sem eru ekki í nefndum fimm-seinustu-lista. Vona ég að þetta standi til bóta - ég á tvíburabróður, Halldór Auðar Svansson að nafni, sem er algert tölvuséní;  ugglaust get ég dobblað hann til að gera bloggsíðuna mína aðgengilegri.)

Góðar stundir. 

Swami Karunananda, 18.7.2007 kl. 17:04

4 identicon

Þakka þér fyrir mjög áhugaverð skrif. Ég á fjölmarga vini sem "blogga" en ég nenni mjög sjaldan að kíkja á það og sk. "bloggsíður", ef út í það er farið. Það sem þú skrifar vekur sannarlega áhuga minn og ég hef fullan hug á því að fylgjast með (þ.e.a.s. meðan þér "endist nenna" til þess að skrifa.

Takk!

Einar Clausen.

Einar Clausen (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 20:50

5 Smámynd: Sigurjón

Er þetta eitthvað skylt ágæti mannsins?  Þ.e. hvert lokatakmarkið er?

Ég á bágt með að sjá að þjáning eigi sér einhverjar aðrar ástæður en að tortíma sjálfri sér.  Þ.e. að þjáning kallar sjálfkrafa á lausn á sjálfri sér og þar með liningu sinnar sjálfrar.  Er maðurinn sumsé dæmdur til að leita stöðugt að liningu þjáningar sinnar, eða finnur hann á endanum lausn á henni endanlega?

Mér fyndist vel að þú reyndir að svara þessum spurningum og mér finnst þú vera þess verður að leita þeirra. 

Sigurjón, 18.7.2007 kl. 23:34

6 Smámynd: Sigurjón

Og hafðu þökk fyrir að leyfa athugasemdir við vefbók þína og greinar.

Sigurjón, 18.7.2007 kl. 23:36

7 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Vissulega er svo að til að geta glaðst verða menn að hafa þjáðst,enginn mun gleðjast nema hann þekki muninn á gleði og þjáningu.Málið er svo auðvitað að öðlast frelsi fyrir fortíð og framtíð og slíkt gerist ekki nema hreinsa til í sinni samvisku og siðferðisvitund.

Varðandi núið þá er auðvitað aldrei neitt nú um leið og ég segi nú er það auðvitað liðið og verður að fortíð,en auðvitað er átt við að skynja hversu dýrmætt augnablikið er okkur,þráhyggja er vandmeðfarið vandamál sem flestir reyna að leysa með lyfjagjöf sem bara gerir vandann meiri.

Annrs flott grein og skemmtilega lesning Kári.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.7.2007 kl. 07:12

8 identicon

Frábær grein og vel skrifuð.  Þú setur hér hugtök á blað sem ég hef ekki séð á íslensku fyrr.  Ég er sjálf í miðri kærleiksríkri baráttu við mitt "tillærða sjálf" og "hið sanna og ódauðlega Sjálf".

'Eg veit loksins að dyrnar voru alltaf opnar.  Ég hafði tilbeðið mitt tillærða sjálf allt of lengi. En þetta eru jakkaföt sem mér voru rétt og eru orðin illa snjáð og þröng.  Passa engan veginn á mig lengur né eru rétti fatnaðurinn fyrir mig i dag.  'Eg veit líka að því (tillærða sjálfinu) stóð ógn af þeim þrautum sem ég þarf að yfirstíga til að endurheimta "hið sanna og ódauðlega sjálf".  Þetta er ferðalag og ég tek einn dag í einu.

Veit ekki hvort að þetta skiljist, en allavega þakka þér fyrir frábær skrif.

Svava

Svava Björnsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 14:14

9 identicon

Ég er Mamma alin upp af Mömmu. Pabbi fór, en Afi og Amma stóðu sig. Enginn misnotaði mig. Hvar sérðu mig?

Kristbjörg (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 01:16

10 Smámynd: Swami Karunananda

Kæra Kristbjörg,

Ég verð að játa að ég skil ekki spurningu þína nógu vel. Gætirðu séð þér fært að orða hana á dálítið lengri og ítarlegri hátt?

Með innilegri kveðju,

Kári

Swami Karunananda, 20.7.2007 kl. 15:56

11 identicon

Mig langar aðeins að kommenta á þessa hugmynd um endalok eymdarinnar (ber að skiljast sem endalok þjáningarinnar?)

 Ég vona að eymdin taki engan enda því það myndi þýða endalok gleðinnar jafnframt. Skynjun mannshugans byggist á andstæðum, ljósið skynjar hann í myrkrinu, hitann með sínum köldu höndum, horfir upp að neðan og horfir til austursins úr vestrinu og  finnur gleðina í óhamingjunni . Eða allt saman öfugt. 

 Að skapa heim með gleði án þjáningar er eins og að reyna að búa til blað með einni hlið. Það er ekki hægt.

 En annars eru skrif þín skemmtileg Kári, fínar pælingar um lífið og tilveruna. 

Kristján (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 15:30

12 Smámynd: Swami Karunananda

Rétt er það að við getum aðeins skynjað hlutina í andstæðum - eins og ég reyndar bendi á í einhverjum pistla minna um þrána og vöntunina sem eru nauðsynleg skilyrði þess að við getum öðlast þráfróun og fyllingu - og þar fram eftir götum. Því tek ég heilshugar undir með þér; mér hefur snúist hugur varðandi eymdina - hún er, eins og þú segir, ómissandi skilyrði þess að við getum upplifað sæluna og velfarnaðinn. Og í einhverjum framtíðar pistli mínum mun ég taka fyrir hið illa, og útlista að án möguleikans á hinu illa getur ekkert gott þrifist. En meira um það síðar!

Með þökk fyrir skemmtilegt og djúpt komment,

Kári  

Swami Karunananda, 27.7.2007 kl. 20:46

13 identicon

Það getur bara ekki verið rétt að ekki sé til gleði án þjáningar/eymdar, margar tilfinningar þurfa ekki andstæðu til þess að blómstra, þær þurfa í mesta lagi að getað flatlinað.

DoctorE (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 19:24

14 identicon

Það vill svo til að það sem greinahöfunur er að vitna í, "hið ódauðlega sjálf" er tilbúningur hins "tillærða sjálfs" og því aðeins uppspretta að þjáningu en ekki lausn hennar. 

Öll trú, hugmyndir um framhaldslíf og þessháttar eru tilbúningur mannkyns og því jafnmikið bull/sannleikur og aðrar hugmyndir sem við höfum fengið í gegnum tíðina.

Vonin um að það sé eitthvað annað en þetta hold sem við erum í, vekur aðeins þjáningu þar til við annað hvort drepumst og komumst að hinu sanna (eða ekki, þar sem við erum dauð), eða við tökum stökk inn í veraldlega firringu, verðum í raun vitstola og trúum því að við séum búin að sameinast okkar ódauðlega sjálfi nú þegar.

Slík firra veitir að sjálfsögðu mikla sjálfsánægju, enda fríar sá einstaklingur sig allri raunverulegri samkennd með umheiminum og þeim raunverulegu vandamálum sem þar eru og þarf að leysa. 

Hættið að flýja veruleikann. Hann blasir við ykkur. 

Magnús G. K. Magnússon (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband