Hvað er karmalögmálið ofan á brauð?

Karmalögmálið er ekki beinlínis lögmál umbunar og refsingar, þótt það sé vissulega réttlátt og sanngjarnt - já, meira að segja sjálf uppfylling og konsúmmering allra hugmynda mannsins um réttlæti og sanngirni.
Réttasta skilgreining karmalögmálsins er sú að það sé tæki til að hjálpa okkur að öðlast jafnvægi í öllum þingum með því að láta okkur ávallt upplifa báðar hliðar hlutanna. Tökum þrjú dæmi:

a) Nú hefur sál fæðst sem kona í mun fleiri jarðvistum en hún hefur verið borin sem karl. Þessa skekkju verður að leiðrétta með því að láta nefnda sál holdgast sem karl í nokkrar jarðvistir í röð, þar til jafnvægi hefur verið náð í anda sem líkama milli kven- og karlþátta tilverunnar.

b) Nú temur einhver öfga-trúarskrumari sér þá leiðu iðju að hóta þeim, sem hyggjast yfirgefa söfnuð hans, með brennisteinsstækju og helvítislogum. Þessi sál verður fyrr eða síðar að upplifa það að óttast að hún sé sjálf á leiðinni í eilífa útskúfun í helvíti, til þess að henni megi lærast að hræðast hvorki sjálf né ógna öðrum með svo ógeðfelldri og falskri hugmynd sem ævarandi vist í víti er.

c) Nú hundsar einhver sál ítrekað neyð og fátækt annars fólks, þótt henni væri væri í lófa lagið að rétta hinum þurfandi hjálparhönd. Sú sál verður að upplifa hvernig er að vera fædd í örbirgð til að öðlast samúð með öðrum sem eiga við svipuð ókjör að búa.

(En nú er von að glöggir lesendur spyrji, að úr því fátækt stafi a.m.k. stundum af vanrækslusyndum á fyrri tilverustigum, hvort ekki sé þá eðlilegt að láta hina páperíseruðu bara velkjast í eigin fátækt án þess að nokkur rétti þeim hjálparhönd? Spurning þessi á fullan rétt á sér, því karmakenningin er víða útlögð með þessum og áþekkum hætti, bæði á Indlandi og innan hinnar sk. ´nýaldarhreyfingar´ á Vesturlöndum. - En svarið við ofantéðri spurningu er ´já´ aðeins við yfirborðslega hundavaðsathugun. Hér gildir hinn spaklegi orðskviður, að ´tvennt rangt gerir ekki eitt rétt.´ Munum að hin fátæktarvanræksluseka sála er fátæk einmitt vegna þess að hún er sek um að vanrækja fátækt. Þetta merkir að það óheillaathæfi okkar að bregðast við fátækt meðsystkinanna, sem stafar af fyrrilífa vanrækslu þeirra gagnvart fátækum, með því að vanrækja sjálf fátækt nefndra meðsystkina, bætir aðeins gráu ofan á svart; skapar einungis meira slæmt karma í stað þess að eyða því gamla. - Eða hvar endar hringavitleysan ef ég hundsa fátækt þess manns, sem er fátækur vegna þess að hann hefur leitt hjá sér þann mann, sem er fátækur sakir þess að hann hefur vanrækt þann mann, sem er fátækur . . . og þannig heldur vítahringurinn áfram ÞAR TIL einhver vitur sála rýfur hann með því að gera hið eina siðlega og rétta hinum fátæka hjálpahönd svo hann geti hafist upp úr örbirgðinni - vonandi reynslunni ríkari! - En alkunna er að fólk sem alist hefur upp í fátækt en komist síðar í álnir gleymir því aldrei hvaðan það er komið; í deiglu fátæktarinnar hefur það öðlast auðmýkt, visku og óbilandi samúð og meðlíðan með þeim sem eiga sjálfir við fátækt að etja. Án hinnar undangengnu örbirgðar hefði það aldrei komist upp á þennan kærleiksstall. - Og með öllu ofangreindu er loks fetaður hinn eftirsóknaverði meðalvegur milli þess að líða skort og að vera nirfill.)

Eitt að lokum! Guð er miskunnsamur og fyrirgefandi, og það er hugarsmíð hans, karmalögmálið, auðvitað líka. Þetta merkir að sá maður sem gerir eitthvað er kallar á karmíska mótsveiflu, en ´sér að sér´ og bætir fyrir ´brotið´ áður en karma-pendúllinn sveiflast yfir í öndverða átt, þarf ekki að upplifa karma-endurverkunina, þar sem hann hefur nú þegar náð því jafnvægi er allt karma stefnir á að koma í kring.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Það er nefnilega það.  Þannig að barn sem fæðist, kvelst í nokkra mánuði og deyr svo, er bara að gjalda fyrir illvirki fyrra lífs?  Ekki segja mér að þú trúir því raunverulega...

Sigurjón, 18.7.2007 kl. 23:44

2 Smámynd: Sigurjón

Ég vil líka mótmæla því að sú sála sem hefur verið fátæk og síðar komizt í álnir gleymi því aldrei að hafa verið fátæk.  Við þurfum ekki að líta lengra en til Skotlands til þess að sjá merki hins gagnstæða í J.K. Rowling.

Sigurjón, 18.7.2007 kl. 23:47

3 Smámynd: Swami Karunananda

Kæri Sigurjón,

Haf þökk fyrir að nenna að kommentera á skrif mín. Ég mun reyna eftir fremstu getu að svara athugasemdum þínum.

Ekki vil ég slá því föstu að öll börn sem fæðast veik og deyja ung lendi í þeim hörmungum sem afleiðingu af illvirkjum í fyrri jarðvistum. En íhugaðu bara málið : er það virkilega eitthvað sanngjarnara eða réttvísara að þessi börn gagni í gegnum hremmingarnar algerlega að tilhæfulausu? Og þá víkjum við að hinni aldagömlu spurningu sem menn hafa spurt sig frá ómunatíð : hvers vegna fæðist fólk svo ótrúlega misjafnt að andlegu sem líkamlegu atgervi? Þar koma þrjú svör til greina : 1) Mismunurinn er bara tilviljun, afleiðing af blindum efnisferlum, 2) Guð eða eitthvert annað æðra afl úthlutar hverjum og einum atgervi og upplag eftir helberum duttlungum, 3) Atgervi manna er rökrétt afleiðing af gjörðum þeirra og hugsunum á fyrri ævistigum.

Mér finnst það ótrúlegt að ég þurfi að útskýra fyrir fullorðnu og greindu fólki að þriðji kosturinn er sá eini sem nokkurt vit eða réttlæti er í.

Svo við lítum aftur á dæmið sem þú nefnir í athugasemd þinni, þ.e. börn sem deyja nokkurra mánaða ung eftir miklar þjáningar, þá felur karma- og endurholdgunarkenningin í sér að nefndir mánuðir sem börnin lifa eru aðeins ör-örlítill partur af hinu raunverulega æviskeiði þeirra, sem spannar ógrynni alda og jafnvel árþúsunda, og þjáningarnar eru svo agnarsmár hluti af nefndri sann-ævi að varla tekur að nefna þær. - Börnin sem deyja ung hafa eflaust í ótal fyrri æviskeiðum verið heil á sál og líkama og lifað fram í háa elli og munu ugglaust í ógrynni framtíðarjarðvista gera slíkt hið sama. Fullkomið réttlæti!

En yfir í nokkuð aðra en skylda sálma. Ég sé ekki ástæðu til að draga fjöður yfir það að ég hef mátt þjást hryllilega af andlegum veikindum síðastliðin fimm ár drjúg. Þessi veikindi segja geðlæknar mér að séu ólæknandi, og verð ég að líkast til að bryðja rótsterk geðlyf alla ævina á enda. Ef ég tryði ekki á framhaldslíf, og nánar tiltekið endurholdgun, væri ég fyrir langa löngu búinn að fyrirfara mér. Endurholdgunarkenningin veitir öllum sem á hana trúa óendanlegt langlundargeð og þolinmæði í andstreymi lífsins. Þjáningarnar sem ég hef þurft að þola eru aðeins brotabrot af lífi sálar minnar (eða yfirvitundar, svo hlutlausara orð sé notað). Þetta merkir að sama hvað hausaskoðararnir staðhæfa þá mun ég læknast - ef ekki í þessari jarðvist, þá í einhverju komandi jarðlífi!

Ég vil ljúka þessum vaðli í mér með eftirfarandi spurningu: hvers vegna fæddist þú ekki og kvaldist í nokkra mánuði og gafst síðan upp öndina, í stað þess að ná fullorðinsaldri við góða heilsu, eins og raun ber vitni? Geturðu virkilega sagt með góðri samvisku að þú sjáir eitthvert réttlæti í þeirri kenningu að þú hafir bara unnið hinn stóra lottóvinning lífsins, en barnið sem deyr ungt hafi bara verið svona óheppið og hlotið tapmiða í nefndu lotteríi?

Með kærri kveðju (og þökk fyrir athugasemdir þínar - megi þær verða fleiri!),

Kári

Swami Karunananda, 19.7.2007 kl. 21:48

4 Smámynd: Sigurjón

Takk fyrir ítarlegt og vel ígrundað svar Kári.  Þetta eru allt athyglisverðar pælingar og það er slæmt að vita að þú skulir haldinn svo alvarlegum geðsjúkdómi.

Ég er ekki viss um að lífið þurfi endilega að vera sanngjarnt eða réttlátt.  Það einfaldlega er.  Ég fæ ekki betur séð en að tilgangurinn með lífinu sé einmitt lífið sjálft.  Ég vil nefnilega meina að ég hafi einmitt unnið í lottói lífsins með því að fæðast heilbrigður inn í ástríka fjölskyldu.  Ég þakka forlögunum fyrir það á hverjum degi (nánast) og er alveg meðvitaður um að ég hefði getað borið skarðan hlut frá borði allsnægta og ástríkis.

Ekki skal ég heldur gera lítið úr trú manna á framhaldslíf, en ég lít reyndar á það sem barnslega trú á nokkuð sem er í raun ekki til, en væri auðvitað frábært ef svo væri.  Sama og með jólasveininn og himnaríki...

Skál! 

Sigurjón, 19.7.2007 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband