Auðvitað er heimurinn hannaður!

Ef einhver staðhæfði að hlutur eins og t.d. bifreið gæti orðið til fyrir vélræn náttúrulögmál, án þess að nokkrir vitsmunir stæðu þar að baki, þá yrði téður einstaklingur eðlilega álitinn vitfirringur.

En þegar svipaðar fullyrðingar eru hafðar í frammi um fyrirbæri náttúrunnar, þá heitir það ekki vitfirring heldur vísindalegur þankagangur!

Sem dæmi um hve útúr-fáránlegur þessi sk. ´vísindalegi hugsanagangur´ er má taka heilastarfsemina. Hversu mikið skilja vísindamenn í henni? - Ekki lort á ljósastaur! Og þá vaknar spurningin : er líklegt að fyrirbæri, sem er svo flókið að þróuðustu vísindi okkar tíma botna hvorki suður né norður í því - er sennilegt að slíkt fyrirbrigði sé tilkomið án þess að að nokkrir vitsmunir hafi komið þar nærri?

Eini munurinn á heilastarfseminni og bifreiðinni er sá að hin fyrrnefnda er óendanlega miklu margslungnari og flóknari en hin síðarnefnda. Þó sér hvert nautheimskt mannsbarn að bifreiðin er hönnuð af marksæknum vitsmunum, en greindustu vísindamenn halda því fram í fúlustu alvöru að heilastarfsemin eigi gerð sína að þakka vitsmunalausum vélgengislögmálum. - Það er eitthvað annað en skynsemin sem stendur að baki þessari afstöðu vísindamannanna!

En hvað gengur vísindamönnum til með að afneita hinu augljósa, þ.e. að vitsmunir liggi að baki fyrirbærum náttúrunnar? Ekki dettur mér í hug að þessi undarlega kergja stafi af einhverjum illum hvötum. Ástæðan er sennilega sú að vísindamenn, líkt og við flest, óttast hið óþekkta; þeim stendur stuggur af því sem kenningar þeirra og tilraunir ná ekki yfir.  -Vísindin á sínu núverandi þróunarstigi geta ekki skyggnst dýpra en í ferla efnisins. Ef efninu er stýrt af vitsmunum ofar efninu, þá þýðir það að til er veruleiki handan seilingar vísindanna. Og það er vísindamönnunum óhugnanleg og ótæk tilhugsun.

(Til að fyrirbyggja allan misskilning þá flögrar ekki að mér að ganga í fótspor vissra trúaröfgahópa sem afneita því að þróunarkenningin eigi við rök að styðjast. Ég álít þróunarkenninguna vera nokkurn veginn eins þaulsannaða og nokkur vísindakenning geti orðið. Það sem ég er að andæfa er einfaldlega sú staðhæfing margra vísindamanna að þróun lífveranna fleyti fram með vitsmunavana höppum og glöppum. - Þetta ætti að verða ljóst ef við berum náttúruna saman við vísindi og tækni. Vísindi og tækni eru, rétt eins og náttúran, í stöðugri þróun - en aðeins fullkomlega veruleikafirrtu fólki kæmi til hugar að engir vitsmunir liggi að baki hinni sífelldu framþróun tækni og vísinda. Og þar sem jafnvel einfaldasta og ósófistikeraðasta amaba er mörg þúsund sinnum flóknari en fullkomnustu tækniundur af mannahöndum gerð- er þá ekki ennþá meiri fimbul-veruleikafirring að telja lífverurnar tilkomnar án nokkurrar vitsmunahönnunar?).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Sæll Kári

Aðgát skal höfð þegar stokkið er á fullyrðingar um að hitt eða þetta hljóti að eiga sér vitræna uppsprettu ef við getum ekki útskýrt það. Fyrir tvö þúsund árum voru menn á þeim tíma duglegir við að útskýra hluti á borð við rigningu og eldingar sem guðlega íhlutun vegna þess að þessir hlutir voru of framandi fyrir þeim til að einhver tilviljun kæmi þar nærri. Í dag glímum við við svipuð vandamál nema af öðru kalíberi og stærra. Þótt við vitum ekki hvernig alheimurinn varð til er engin ástæða til að ætla að eitthvað vitrænt sé þar að baki, þá dettum við í sömu rökvilluna og forfeður okkar gerðu þegar þeir vildu útskýra sólarganginn og stjörnurnar.

(Að auki er það ekki allskostar rétt að það sé ekkert vitað um heilastarfsemina, þvert á móti benda rannsóknir æ sterkar til að ekkert yfirnáttúrulegt sé við hann.)

Kveðja

Kristján

Kristján Hrannar Pálsson, 17.7.2007 kl. 11:46

2 Smámynd: Swami Karunananda

Blessaður Kristján

Ég þakka fyrir umþenkingarverða athugasemd. Verð ég að viðurkenna að hún olli mér töluverðum heilabrotum. En svo datt niður í kollinn á mér eftirfarandi mótbára:

Þú nefnir réttilega að eitt sinn hafi hið fáfróða mannkyn talið náttúrufyrirbæri eins og rigningu og eldingar stafa af guðlegri íhlutun, en í dag vitum við að þau eru sjálfsprottin og lúta engri æðri stjórn. Síðan gefurðu í skyn að öll önnur náttúrufyrirbrigði muni í fyllingu tímans verða útskýrð á sama hátt (biðst afsökunar ef ég er að oftúlka orð þín, en ég skil þau á þennan hátt.)

Þennan síðari þátt get ég engan veginn fallist á. Það er afgerandi munur á hlutum eins og eldingu og rigningu annars vegar og hins vegar fyrirbrigðum líkt og eyra eða fæti á dýri. Sá munur felst í einu orði : marksækni. Með öðrum orðum : rigningin og eldingin stefna ekki að neinu marki, en það gera eyrað og fóturinn. - Eða hvernig stendur á tilvist augans og fótarins? Eina rökrétta svarið er að eyrað sé til þess að heyra og fóturinn til þess að ganga. En líkt og notkun orðasambandsins ´til þess að´ í málsgreininni hér á undan gefur til kynna þá er tilgangur með eyranu og fætinum. Engan sambærilegan tilgang má sjá með rigningunni og eldingunni; tóm fjarstæða er að segja að eldingin leiftri til þess að ljósta hina óguðlegu eða eitthvað álíka, enda engin sjáanleg fylgni með því að vera varmenni og að vera sleginn eldingu. - Og nú er spurn : getur tilgangur verið með hlutunum án einhverra bakviðstæðra vitsmuna?

Ef ofangreind rökfærsla virkar ekki sannfærandi, þá skulum við líta nánar á það hvernig hlutur eins og eyrað verður til. Eyrað kemur væntanlega til sögunnar sakir áreitis hljóðbylgna á hina óheyrandi lífveru. Semsagt : hljóðbylgjurnar skella á lífveruna og hún bregst við með því að þróa heyrnarfæri. En hvernig getur organisminn myndað sér heyrnarfæri til þess að nema hljóðbylgjurnar, nema að baki honum sé einhver vitund sem ákveður að æskilegt sé að nema hljóðbylgjurnar og beitir í kjölfarið vitsmunum sínum til þess að smíða viðeigandi heyrnarfæri? - Að halda því fram að hljóðbylgjurnar skapi eyrað á vélrænan hátt, án þess að nokkrir vitsmunir komi þar nærri, er áþekkt því að staðhæfa að sjónvarpsbylgjurnar orsaki áhorf þeirra sem á sjónvarpið glápa! - Auðvitað er það rétt að án sjónvarpsbylgjanna yrði ekkert áhorf - en það er jafn rétt að án vitsmunalegrar viljaákvörðunar glápenda yrði ekkert áhorf heldur. - Og á líkan hátt er málum háttað með eyrað eða önnur augljóslega marksækin líffæri : vitsmuni þarf til!

Vel geri ég mér grein fyrir því að ofantalið er allt umdeilanlegt. En ég held ótrauður áfram að artíkúlera mín sjónarmið, því jafnvel þótt ég hafi rangt fyrir mér þá hef ég samt lagt mín lóð á vogarskál sannleikans, því sannleikurinn getur ekki annað en grætt á því að sem flest sjónarmið heyrist í umræðunni (líkt og hinn mikli breski heimspekingur John Stuart Mill sagði á 19. öld).

Að lokum hvet ég alla er hafa skoðun á því sem reifað var hér að ofan til að leggja orð í belg.

(Ps. Ég sagði hér að ofan að enginn tilgangur væri með rigningunni - en er rigningin ekki til þess að vökva jörðina? Eru ekki vitsmunir að baki hringrás vatnsins, sem er svo aðdáanlega hentug og raunar nauðsynleg öllu lífi á Jörðu?:)

Með kærri kveðju,

Kári

Swami Karunananda, 17.7.2007 kl. 20:09

3 Smámynd: Swami Karunananda

Sæll aftur Kristján.

Mér flaug í hug eitt komment eftir að ég var búinn að senda athugasemdina hér að ofan : hvernig stendur á því að fjallið þróar ekki með sér nein heyrnarfæri þrátt fyrir að hljóðbylgjur skelli á því svo árþúsundum eða jafnvel ármilljónum skiptir? Er þetta ekki óyggjandi sönnun þess að heyrnarfærin (og önnur skynfæri einnig) verði ekki til á vélrænan og vitsmunalausan hátt?

Með innilegri kveðju,

Kári

Swami Karunananda, 17.7.2007 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband