5.7.2007 | 17:49
Vonda veröld!
Fyrir nokkru heyrði ég því fleygt að einhverjir frómir menn hafi reiknað út að fyrir aðeins 1% þess fjár, sem rennur til hernaðarmála í heiminum ár hver, mætti metta alla svanga maga í veröldinni, og koma algerlega í veg yfir að nokkur sála sylti til bana.
Hugsið ykkur bara! Einn skitinn hundraðshluti!
Stjarnfræðilegum upphæðum er mokað í knattspyrnudindla fyrir að leika sér með bolta eins og krakkar, en á meðan lepur hátt í helmingur jarðarbúa dauðann úr skel, og ótaldar eru þær milljónir sem látast ár hvert úr sjúkdómum sem hægt er að lækna með einni sprautu hér á Vesturlöndum.
En yfir í annað. Nýlega sá ég sláandi og átakanlega mynd í sjónvarpinu sem nefndist "Human Trafficking" og fjallaði eins og nafnið bendir til um hið ömurlega fyrirbæri sem hlotið hefur heitið ´mansal´ á íslensku. Þessi nútímaútgáfa þrælahalds er í alla staði skelfilegt fyrirbrigði, og varla hægt að ímynda sér þær líkamlegu og sálrænu kvalir sem fórnarlömbin þurfa að ganga í gegnum. Án efa verður það eitt brýnasta mannúðarmál næstu áratuga að stemma þessa óhugnaðará að ósi.
Svo eru það umhverfisspjöllin. Verið er að eyða regnskógum heimsins svo hratt að áætlað er að eftir hálfa öld eða svo verði naumast tangur né tetur eftir af þessum ómetanlegu náttúrudjásnum. Og til hvers? Jú, hvað regnskógum Brasilíu viðvíkur að minnsta kosti, til þess að framleiða beitihaga fyrir nautpening sem síðan er slátrað og hann seldur fyrir spottprís hamborgarabúllum í Bandaríkjunum svo þarlendir spikboltar geti gúffað í sig fitulöðrandi ketið og aukið enn einni fellingu á ístruna. Og eflaust er regnskógaeyðing í öðrum heimshlutum sprottin af einhverjum álíka þungvægum ástæðum.
Og svo við víkjum talinu að heimalandi voru, þá hef ég löngum furðað mig á þeirri misskiptingu launa sem viðgengst eftir mismunandi starfsstéttum. Þannig fær t.d. bankastjórinn margfalt hærra kaup en leikskólakennarinn fyrir sömu eða jafnvel minni vinnu. Og ef spurt er um ástæðuna fyrir þessum mismun þá er yfirleitt vísað til hugtaksins ´ábyrgðar´. Þar með er gefið í skyn, án þess að segja það berum orðum, að launahærri stéttir beri meiri ´ábyrgð´ en þær launalægri. - Sér er nú hver ábyrgðin! Ef það krefst meiri ábyrgðar að (svo dæmi sé tekið) reka banka en að hlúa að börnunum okkar, þá heiti ég Álfgrímur Angantýsson og bý í Zimbabwe. - Oft hefur flögrað að mér hvort ekki væri bara best að veita öllum sömu laun fyrir sama vinnustundafjölda. Þá yrði tryggt að fólk veldi sér störf eftir getu og áhuga, en ekki af neinum annarlegum ástæðum svo sem því hve feitur launatékkinn er.
Þá er ´ranti´ dagsins lokið í bili. Endilega kommenterið á ofantalið ef þið nennið, því fleira sjá pennar en penni, eða eitthvað þannig. :)
Góðar stundir.
Athugasemdir
Stórgóður pistill sem er umhugsunarvaki. Þau vandamál sem fólki finnst það oft standi frammi fyrir virka oft á tíðum léttvæg þegar við horfum á heildarmyndina, án þess þó að ég ætli svosem að gera eitthvað lítið úr hvunndagsvandamálunum.
Þakka gott blogg, sem er stórgóð viðbót við bloggflóruna.
Guðmundur Örn Jónsson, 6.7.2007 kl. 00:28
Sammála ykkur, stórgóður pistill, reyndar hélt ég alltaf að eyðing skóga væri til að framleiða pappír. Og já, talandi um ábyrgð, ég hef sjaldan séð háttsett fólk í ábyrgðarstöðum rekið fyrir taprekstur eða slæman rekstur yfir höfuð, en ef svo væri þá væri það örugglega bara tæknileg mistök
Sævar Einarsson, 6.7.2007 kl. 00:42
Nei, eyðing skóga er einmitt fyrst og fremst til að rýma fyrir nautgriparækt. Pappírinn er að mestu framleiddur úr trjám úr nytjaskógum.
Varðandi ábyrgð stjórnanda, þá er nýlegur dómur þar sem olíufurstarnir voru firrtir allri ábyrgð á gjörðum fyrirtækjanna umhugsunarverður ...
Þarfagreinir, 6.7.2007 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.