2.7.2007 | 18:22
Duldir fjársjóðir ljóðlistarinnar - annar hluti
Áfram höldum við að kryfja til mergjar sakleysislega útlítandi vísur, sem allir landsmenn hafa á hraðbergi, án þess að renna í grun um hina sönnu og dýpri merkingu kvæðanna.
Að þessu sinn hefur orðið fyrir valinu vísa sú sem þekkt er af fyrstu línunni : ´Fljúga hvítu fiðrildin´.
Ljóst er að inntak vísunnar er hátrúarlegt, líkt og reyndar vísan sem við tókum til meðfjöllunar í fyrsta pistli þessa greinaflokks, ´Bí, bí og blaka´ - en með allt öðrum formerkjum. Þar sem ´Bí, bí og blaka´ var dökk og bölsýn, þar er ´Fljúga hvítu fiðrildin´ gleðileg og bjartsýn.
En hefjumst þá handa við krufninguna. Fyrsta línan, eins og að ofan er sagt, er þessi:
´Fljúga hvítu fiðrildin´.
Hér tökum við þegar eftir hve undursamlega knöpp og gagnorð vísa þessi er; ekki er einu orði ofaukið né er nokkru viðbótarvant. Greinum þessa fyrstu línu með því að taka til umfjöllunar eitt orð í senn:
Orðið ´fljúga´ klárgerir þegar hið trúarlega inntak vísunnar. Að ´fljúga´ er jú mjög algengt minni í trúarhugleiðingum : englar fljúga á vængjum sínum; sálin flýgur upp til Guðs eftir andlátið; Guð sjálfur svífur (en svif er nokkurs konar flug) yfir vötnum í árdegi sköpunarinnar, o.s.fr.v
Orðið ´hvítu´ hnykkir enn á religiösiteti vísunnar. Hvítt er jú litur sakleysis, guðrækni og syndakvittunar. "Þótt syndir yðar séu rauðar sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll" segir Drottinn þegar hann kunngerir syndaaflausnina tilbeiðendum sínum.
Orðið ´fiðrildin´ styrkir enn frekar trúarboðskapinn sem er má með sanni segja að sé´leitmotif´ kvæðisins - en bætir við nýrri vídd í það leiðarminni. Fiðrildin fljúga jú, og mega því teljast nokkurs konar tákngervingur englanna - EN með þeim mjög svo mikilvæga mun að flug fiðrildanna er flögrandi og fremur ómarkvisst.
Svo við tökum saman heildarboðskap fyrstu línu vísunnar, þá virðist hér vera á ferðinni lýsing á trúuðu fólki sem ´flýgur´sem englar, er ´hvítt´sem hinir syndlausu, en ennþá nokkuð veikburða og flöktandi í trúnni, sbr. hið flögrandi flug ´fiðrildanna´.
Tökum þá til meðferðar aðra línuna:
´Fyrir utan gluggann.´
Hér er lýst hinu nokkuð svo dapurlega hlutskipti hinna trúuðu í vondum og trúlausum heimi. Hið trúveikburða fólk sem tákngert er með ´fiðrildunum´ er ´fyrir utan glugga´ almenningsálitsins - þ.e. ´úti´ í kuldanum en ekki ´inni´ í hlýjunni. En inntak annarrar línunnar hefur einnig aðra merkingu: að vera ´inni´ í hlýjunni fjarri trúnni er hið þægilega hlutskipti hins sauðlynda meðalmanns, en að vera trúaður felur í sér að maður tekur ekki lengur þátt í hinni þægilegu sauðfrómu blekkingu trúleysingjanna - er ´fyrir utan glugga´ hennar.
En að vera ´fyrir utan gluggann´ felur einnig í sér annan og dýpri boðskap. Sá er að hnykkja á hinu óstöðuga og flöktandi ástandi ´fiðrildanna´ í trúnni: ´fiðrildin´ eru ´fyrir utan glugga´ Guðs, þ.e. þau hafa ekki enn fundið leiðina innum gluggann á húsi almættisins. - Hér mætti vísa í ótal Biblíulýsingar á guðdómnum sem húsi.
Þá er það þriðja línan:
´Þarna siglir einhver inn´.
Aftur rekum við okkur á hinn yfirmáta-knappleika kvæðisins; hvert einasta orð er nauðsynlegur hlekkur í keðju vísunnar.
Orðið ´þarna´ felur í sér fjarlægð, því nefnt orð er andstæða hugtaksins ´hérna´.
Orðið ´siglir´ er enn ein ítrekunin á trúarboðskap vísunnar, og ber með sér mörg hugrenningatengsl. Að líkja lífinu við bát sem ´siglir´ yfir storma jarðlífsins og í örugga höfn Guðs er jú afar algengt minni í trúarskáldskap. Auk þess ´siglir´ báturinn á vatni, en vatn er eins og fyrr sagði í grein þessari mjög algengt tákn fyrir Guðdóminn. Og að síðustu: að ´sigla´ er andstæða þess að ´sökkva´ og vísar þess vegna til þess að hver svo sem er að ´sigla´ í kvæðinu (en það kemur í ljós í síðustu línunni) er óhultur og öruggur.
Orðið ´einhver´ merkir að ´siglandinn´ er enn sem komið er ókunnur; hann sést úr fjarlægð og er enn ekki kominn.
Orðið ´inn´ er snilldarleg tenging við inntak annarrar línunnar : ´siglandinn´ er á leiðinni ´inn´ í hlýjuna sem ´fiðrildin´ eru ´úti´ við, þ.e. hlýju Himnaföðurins. Með öðrum orðum: ´siglandinn´ ber í sér hjálpræðið og trúarstaðfestuna sem ´fiðrildin´ á flökti sínu skortir.
Þá er það síðasta línan, sem botnar á glimrandi hátt allt ofantalið:
´Ofurlítil duggan´.
´Dugga´ þýðir ´smábátur´ og smæð ´duggunnar´ er fest enn frekar í sessi með því að segja hana ´ofurlitla´. Klárlega er hér á ferð genöl allegóría Himnaríkis: Jesús líkir jú á nokkrum stöðum í Biblíunni Guðsríki við mustarðskorn sem er smærra en allt smátt - en vex uppí stærðarinnar eikartré. Með orðinu ´dugga ´(þ.e. bátur) er skerpt enn á hinum sáluhjálpræna boðskap vísunnar: líkt og fyrr sagði þá er leiðinni til almættisins oft lýst sem báti sem ´sigli´ (sjá þriðju línu) yfir öldurót mannlífsins í hlífðarhöfn Guðs.
EN - takið eftir hinni snilldarlega tvíræðu merkingu orðsins ´ofur´ í samhengi vísunnar. Í aðra röndina er það notað til að leggja þyngri áherslu á lo. ´lítil´; en á hina höndina merkir það ´eitthvað ofurmannlegt.´Hér getum við aftur vísað til fyrri ummæla um að Guðsríki sé eins og mustarðskorn sem vex uppí stærðarinnar eik. Með brúkun þessarar tvíræðni næst fram sú tvöfalda merking að Guðsríki sé jafnt ´ofurlítið´ og ´ofurstórt´.
Þá er yfirferð okkar um hina stórmerku vísu ´Fjúga hvítu fiðrildin´ lokið - og sjá! kvæðið reynist luma á dásamlega djúpum og spakvitrum boðskap. Ekki verður of mikið brýnt fyrir bókmenntafræðingum að taka upp þráðinn þar sem ég sleppi honum hér, og auðga þar með og frjóvga skilning okkar á vísum, sem reynast við faglega athugun vera allt annað en þau virðast vera í augum hinna óupplýstu.
Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.