Þráin er sumum ágæt!

Allir hlutir skilgreinast af andstæðu sinni. Ljós getur ekki verið til án myrkurs; eining getur ekki verið til án fjölbreytni; fylling getur ekki verið til án vöntunar; þráleysi getur ekki verið til án þrár; velsæld getur ekki verið til án vansældar; hvíld getur ekki verið til án starfsemi; guðdómurinn getur ekki verið til án heimsins.

Gangur hinna miklu þróunar fer fram í eilífu víxli ofangreindra andstæðna. Við sveiflumst í sífellu milli ljóss og myrkurs, einingar og aðgreiningar, anda og efnis, þrár og þráleysis, o.s.frv. Með öðrum orðum : þegar við höfum hlotið hina þráeyðandi fyllingu ljóssins fer okkur á endanum að lengja eftir vöntun myrkursins, og þegar við höfum fengið nóg af hinni þrábundnu vöntunarkvöl myrkursins förum við að þrá að losna undan þránni og öðlast samrunann við fyllingu ljóssins á ný. Stafar þetta einmitt af því að andstæðurnar, sem taldar eru upp í byrjun pistilkorns þessa, geta ekki verið til hvor án annarrar : fylling elur af sér vöntun og vöntun fyllingu; ljós fæðir myrkur og myrkur ljós; andi getur af sér efni og efni anda, og svo framvegis. Að dvelja um alla eilífð í annaðhvort ljósi eða myrkri er jafn óhugsandi og það er ókræsilegt. - Önnur leið til að tjá þetta er að hvíldin yrði leiðingjörn ef engin væri starfsemin, og starfsemin yrði þreytandi ef engin væri hvíldin. -Og í ofangreindum víxlgangi heldur þróunin áfram um alla eilífð.

EN : þetta þýðir ekki að gangur þróunarinnar sé ævarandi jó-jó eða borðtennisspil eða lokaður hringur þar sem eitt ástandið taki við af öðru í sífellu án þess að um nokkra framför sé að ræða. Þróunin er ekki lokaður hringur heldur hringstigi, spírall. Þetta merkir að við upplifum andstæðurnar (anda og efni, o.s.frv.) á víxl, sem fyrr sagði - en ávallt á hærra og æðra stigi. Hver upplifun okkar af guðdóminum/ljósinu er fyllri og dásamlegri en samsvarandi upplifun á spíralhringnum þar fyrir neðan, og hver upplifun okkar á heiminum/myrkrinu er intensívari og ríkulegri en samsvarandi reynsla á hringferðinni þar á undan. Og lægsta þrepið á hverri hringferð er hærra en hæsta stigið á hringferðinni á undan.

Rökin sem færð voru í bloggi mínu, "Þráin er þjáninganna móðir," fyrir því að útrýma beri þránni eiga þannig aðeins við um sálir sem eru á leið til ljóssins/einingarinnar í sínum hring spíralsins. Fyrir sálir sem eru á öndverðum vegi, þ.e. leið til efnisins/aðgreiningarinnar, er þráin í himnalagi - og er reyndar skilyrði fyrir áframhaldandi framþróun.

Ég bið lesendur vel að lifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Hvar ætli ég sé staddur? Ég þrái alla vega afskaplega fátt, alla vega efnislegt.

Þarfagreinir, 29.6.2007 kl. 22:44

2 Smámynd: Swami Karunananda

Þú ert kominn á það stig að efnisleg gæði eru farin að skipta þig litlu máli. Þess í stað beinist athygli að hugrænum gæðum, og er vísindaáhugi þinn til marks um það. 

Við sem erum að mestu laus við þrána erum sífellt að leita einingar. Vísindahugsuðurnir (þ.e. þú og skoðanabræður þínir) eru líka á höttunum eftir einingu, en í stað þess að leita hennar í trúarbrögðum eða andlegum málefnum þá leitið þið hennar í einingu náttúrulögmálana. Eða hvað eru vísindamenn (fyrst og fremst eðlisfræðingar) nútímans að reyna að finna nema hina einu  sáraeinföldu kenningu um náttúru alheimsins sem sameinar öll önnur náttúrulögmál undir einum hatti? 

Allt sem nokkurs er vert í heimi þessum er sífellt á höttunum eftir einingu. Það er fjallstindurinn þar sem vísindi, trúarbrögð og heimspeki mætast allir á, þótt með afar mismunandi hætti sé.

Swami Karunananda, 30.6.2007 kl. 21:18

3 Smámynd: Swami Karunananda

Smávegis villa : að sjálfsögðu hefði ég átt að rita : ". . . vísindi, trúarbrögð og heimspeki mætast öll á . . ."

Swami Karunananda, 30.6.2007 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband