29.6.2007 | 00:20
Þráin er þjáninganna móðir - enn einni andæfingu svarað
Mótbára : Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, og með svipuðum hætti getur enginn upplifað fyllingu án þess að hafa reynt vöntunina / tómleikann.
Svar : Rétt er það (svo dæmi sé tekið) að enginn kann réttilega að meta heilsuna nema hafa reynt heilsuleysi. EN - að læra að meta heilsuna með því að missa hana hefur enga þýðingu nema heilsan sé endurheimt; að öðrum kosti er eftirsjáin eftir hinni glötuðu heilsu bara óslökkvandi hugkvalabál. Með sama móti hefur vöntunin enga þýðingu nema hún sé uppfyllt. Því má segja heilshugar að markmið vöntunarinnar sé að útrýma sjálfri sér.
Við erum stödd á þessari Jörðu m.a. vegna þess að við þráum að upplifa andstæðu hinnar Guðdómlegu fyllingar - einmitt sakir þess að við getum ekki metið að verðleikum hina Guðdómlegu fyllingu án þess að hafa fyrst farið á mis við hana, m.ö.o. að hafa upplifað vöntun hennar og þráð að bæta þar úr. Ef við værum ætíð í hinu upphaflegu ástandi Guðdómlegrar fyllingar þá tækjum við því sem sjálfsögðum hlut og nytum þess ekki sem skyldi.
Því á ofangreind mótbára fullan rétt á sér, svo langt sem hún nær : við verðum vissulega að upplifa vöntun til þess að njóta fyllingar.
En við verðum að skilja skarplega milli uppfyllingar annars vegar einstakra þráa og hins vegar þrárinnar sem slíkrar. Sælan sem hlýst af svölun einstakra þráa er aðeins afbökuð og stórskert mynd hinnar algerru sælu sem fæst af því að svala endanlega allri þrá. Og eftir að allri þrá er fullnægt þá munum við alla tíð eftir því hve sár þráin var, og erum því ævinlega þakklát fyrir hina Guðdómlegu fyllingu, sem nú er hlutskipti okkar enn á ný - en í þetta sinn metið að verðleikum, þar sem við þekkjum hina ólukkulegu andstæðu þess. Og að öðlast téð hlutskipti er einmitt tilgangurinn með því að steypa okkur ofan í táradal þráasýkinnar til að byrja með.
Því getum við með sanni sagt að tilgangur þrárinnar sé að útrýma þránni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.