27.6.2007 | 21:52
Hlutverk hugans
Hugurinn er undursamlegt verkfæri. Beiting hans hefur fært okkur nútímafólkinu ómetanleg menningar-, tækni- og vísindadásemdir. Án hans værum við eflaust ennþá frummenn sem byggju í hellum og skutluðu sér mammúta í matinn.
En þetta frábæra verkfæri, hugurinn, er á endanum aðeins það - verkfæri. Og sem verkfæri getur hugurinn þjónað bæði Guði og Kölska - huganum er nokk sama hvorum húsbóndanum hann lýtur. Sami sefi og skapaði sjónvarpið og flugvélina bjó einnig til kjarnorkusprengjuna og skipulagði útrýmingarbúðir nasista.
Við þurfum því að skilja skarplega milli réttrar og rangrar notkunar hugans. Í hinum unaðslegu Jóga--fræðum Indlands er hinni æskilegu beitingu hugans lýst þannig, að hann þenki alfarið í núinu og afsali sér öllum ávöxtum athafna.
Hvað felst í því að lifa í núinu og afsala sér ávöxtum athafna? Jóginn hættir ekki að læra af reynslunni (þ.e. hugsa til fortíðar) né gera áætlanir (þ.e. þenkja til framtíðar) - það sem víkur er hin hugræna afstaða jógans til fortíðar og framtíðar; hann hættir einfaldlega að láta sig nokkuð varða hvernig hið liðna var eða hvernig hið ókomna muni verða. Engin eftirsjá eða sektarkennd yfir fortíðinni, og engin kvíði eða þrá varðandi framtíðina.
Ástæða ofangreinds áhugaleysis um ávexti athafna (sem sumum þykir eflaust óvænt, ef ekki hreinlega sjokkerandi) er sú að það er óráðlegt að hengja hamingju sína á það hvernig veröldin veltist. Rökstuðningur? Jú, allir hljóta að viðurkenna að það eru ekki atvikin sjálf sem valda viðbrögðunum (þ.e. sorg eða gleði), heldur felast viðbrögðin í viðbregðandanum; mér er í sjálfsvald sett hvort ég æðrast eða fagna yfir því hvernig heiminum fram vindur. Og úr því málunum er svo háttað, hví þá ekki að velja gleðina og hamingjuna sama hver ytri skilyrði eða atvik eru?
En þetta nær lengra. Jóginn er algjörlega ótjóðraður ávöxtum athafna sinna, þ.e. að hann er ekki á nokkurn hátt bundinn því að hlutirnir fari á þennan veginn fremur en hinn. Í öllum tilfellum er Jóginn glaður, árvakur, athyglisskarpur og ákaflega lifandi í hugsun - og alfarið bundinn núinu. Og þar sem hann flækir sig ekki í að athafnirnar hafi eina afleiðingu fremur annarri, þá getur hann brugðist við tafarlaus, fumlaust og hárrétt (því núið er alviturt) við hvaða aðstæðum sem athafnirnar leiða til. Með öðrum orðum : ekki fyrirfinnst hjá Jóganum nokkurt ´ef aðeins´ eða ´hvað ef´ né nokkuð í þá veru ; hið eina sem gildir er ´þetta er að gerast - því bregst ég svo við´.
Nú fara hlutirnir ekki eins og ég hefði óskað. Á ég þá að fyllast gremju og vonleysi og leggja árar í bát? - Nei, ef ég hef nokkurt vit í kollinum þá felli ég mig við niðurstöðuna hver sem hún er, hvort sem mér þykir hún ljúf eða leið, og hegða mér í samræmi við það sem er, en ekki því sem ég vildi að væri - áhyggjulaus og í fullkomnu æðruleysi.
Allt snýst þetta um að vera með opinn, þjálan, næman, óhlutdrægan, allsgáðan og blekkingarlausan huga sem getur brugðist við hlutunum þegar þeir birtast og eins og þeir birtast; mínútu eftir mínútu, dag frá degi - ávallt útfrá hinu tímalausa núi. Líkt og segir í niðurlagi næstu efnisgreinar að ofan, þá starfar jóginn í samræmi við hvernig hlutirnir eru - en ekki eins og þeir gætu verið. Og hvernig öðruvísi er viturlegt að haga lífi sínu?
Að vera á nokkurn hátt umhugað um hvernig hlutirnir atvikast er augljóslega dragbítur á þá hugsanalipurð og athafnaopinleika sem lýst er hér að framan. Slík umhugun er að vera bundinn ákveðnum afleiðingum athafna og vera ófær um að bregðast skjótt, skammlaust og röggsamlega við útkomu atburðanna, sama hver hún kann að vera, og hvort sem hún er væn eða vond.
En þetta er ekki öll sólarsagan. Hugar- og athafnafrelsið sem af ávaxta-afsalinu leiðir er ekki eina ástæða þess að hyggilegt sé að afsala sér ávöxtum athafna. Önnur ástæða er sú að við höfum hvort eð er engin áhrif á hvernig hlutirnir atvikast þegar athöfn okkar sleppir. Framtíðinni getur undið fram á þúsund og eina vegu, og það er ekki nema að litlu og e.t.v. engu leyti sem athafnir okkar ráða þar nokkuð um. Og hví að hafa af því nokkrar áhyggjur sem er ekki á okkar valdi hvort eð er? Því er eina rétta afstaðan til ávaxta athafna okkar sú, að ef allt gengur að óskum, þá er það fínt - en ef allt fer í steik, þá er það bara í himnalagi líka!
En enn höfum við ekki tæmt umfjöllunarefnið! Nú verðum við að hætta okkur út á hinn hála ís frumspekinnar og sökkva okkur ofan í vangaveltur sem mörgum kann að þykja hæpnar, ef ekki hreinasta vitleysa. En með ofagreindan fyrirvara skulum við vinda okkur í djobbið:
Hvert er eðli hugarverksemdarinnar? Þegar öllu er á botninn hvolft þá byggist öll hugarstarfsemi á blekkingu, þ.e. táli tímans. Við ráðum ekki við hið liðna, og því er ekkert vit í að sjá eftir nokkrum sköpuðum hlut. Þetta viðurkenna allir við örlitla umhugsun. En - og nú kemur nokkuð sem flestum bregður eflaust við að heyra - við höfum engin áhrif á hið ókomna heldur!
Því hið ókomna er einmitt það - það er ekki komið, og það sem er ekki komið getum við eðlilega ekki haft neina stjórn á. Við höfum sem sagt ekkert vald á ávöxtum athafna okkar (sem eru ævinlega í hinni óraunhlítu framtíð) - hið eina sem við ráðum yfir er athöfnin sjálf (sem á sér ávallt stað í núinu). Og hví þá að hengja sig í ávexti athafna eða bera nokkurn kvíðboga fyrir þeim, hvað þá heldur að þrá þá eða finna til vöntunar ef þeir eru ekki eins og við hefðum óskað?
Sem sagt: það sem við höfum engin áhrif á er best að hugsa alls ekki um!
(Ég hef í öðrum pistli mínum hér á Moggablogginu fært ítarlegri rök fyrir fánýti þess að þrá, þ.e. því að lifa og hugsa í því táli sem framtíðin er. Pistill sá heitir : "Þráin er þjáninganna móðir," og vísa ég áhugasömum á hann.)
En ef hið ókomna ekki til, eins og staðhæft er hér að ofan, hví ættum við þá að gera nokkrar áætlanir varðandi framtíðina? Það stríðir gegn eðlislægum þankagangi okkar að búa okkur ekki á nokkurn hátt undir hið óliðna.
Og hér getum við ekki komið með betra svar en það sem felst í þessari þversagnakenndu fullyrðingu: "Málið er að gera plön eftir okkar bestu vitund - en vera okkur samt vitandi um blekkingu allra plana!"
Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.