24.2.2012 | 17:44
Hver er leiðin handa mér og þér?
Allt frá því ég fór fyrst að garfa af alvöru í svokölluðum ´andlegum málefnum´ hef ég einarðlega veigrað mér við því að kommitterast nokkrum ákveðnum trúarbrögðum eða andlegum hreyfingum, í þeirri sannfæringu að með slíku væri ég að lýsa óbeint yfir frati á öll önnur trúarbrögð og andlegar hreyfingar. Ég hef viljað sækja það sem mig lystir í alla hugsanlega spiritúala strauma og stefnur, án þess að binda mig nokkrum þeirra öðrum fremur.
En upp á síðkastið hafa runnið á mig tvær grímur hvað þessa afstöðu mína varðar.
Við getum tekið líkingu af íþróttum: til þess að verða virkilega góður á þeim vettvangi verður maður alla jafna að velja eina og aðeins eina íþróttagrein og halda sig við hana. En er maður nokkuð að gefa skít í aðrar íþróttagreinar, og lýsa því yfir að þær séu rangar, með því að kjósa að fókusera á einhverja eina þeirra?
Fæstir myndu svara þeirri spurningu játandi.
Og svipað held ég að það sé með religjónir og andlegar hreyfingar: það er vel hægt að bera djúpa og ósvikna virðingu (jafnvel lotningu) fyrir öllum þeim spiritúölu leiðum sem annað fólk kann að kjósa, þótt maður velji prívat og persónulega að fylgja einhverri einni ákveðinni leið.
Og við getum dregið annan lærdóm af ofangreindri íþróttalíkingu: eins og sagt var hér að ofan verður fólk nánast alltaf að halda sig staðfastlega við eina íþróttagrein til að ná árangri; það er ekki á færi annarra en ofurmenna að skara framúr í fleiri en einni sportgrein.
Og gæti það ekki verið svipað með hina andlegu hlið tilverunnar: að til þess að taka verulegum spiritúölum framförum verði maður að hætta að snuðra út um allar trissur andlegra málefna, heldur leita þess í stað vel og vandlega að þeirri spiritúölu leið sem höfðar mest til manns og hentar manni best, og hella sér síðan af öllum lífs og sálar kröftum út í þá leið þegar hún er fundin, og horfa hvergi til baka?
Hér á ágætlega við að vitna í velþekkta líkingu af manni sem er að grafa fyrir vatni: að grafa margar litlar holur er ekki til árangurs fallið; það er miklu afraksturslíklegra að grafa eina stóra holu.
En að þessu sögðu þá vaknar spurningin: hver er sú leið sem best hæfir mér og þér (þ.e. að því gefnu að maður verði að velja sér einhvern einn vissan andlegan veg, sem er auðvitað ekki hafið yfir allan vafa)?
Þú ert eina manneskjan sem getur svarað þeirri spurningu fyrir þitt leyti.
Fyrir mína parta verð ég að viðurkenna að ég hef enn ekki fundið mína kjörleið um stigu andans. En þó hafa tvær fornar og djúpar andlegar hreyfingar löngum haft einkennilegt seiðmagn fyrir mitt sálartetur: Taóismi og Súfismi.
Það er mín sannfæring, sem ég deili sjálfsagt með mörgu öðru fólki, að enn í dag hafi fátt betra verið skrifað um spiritúöl málefni heldur en hin 2500 ára gamla ´Biblía´ Taóismans, Bókin um Veginn.
Og hvað Súfismann varðar þá þarf maður ekki annað en að lesa ljóð hins óviðjafnanlega persneska súfí-skálds Rúmís (uppi á 13. öld okkar tímatals, ef mér skjöplast ei) til að sjá að þarna er á ferðinni firindjúp og jörmunfögur trúarhreyfing.
En áfram heldur leitin! Ég lofa að láta ykkur vita þegar ég hef fundið mitt ídeala skip til að ferja mig yfir brimskafla og brotsjói jarðlífsins og heim í höfn Móðurinnar miklu . . . ;)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.