15.1.2012 | 01:27
Hverju er að þakka?
Mikið óskaplega eru þær hvimleiðar þessar ´eftiráskýringar´ kirkjunnar manna þess efnis að hin sívaxandi mannúð og réttlæti í vestrænum þjóðfélögum síðustu örfáar aldirnar sé ´kristnum´ siðaboðskap að þakka.
Ef þessi áróður klerkanna á við rök að styðjast, hví tók það þá svona langan tíma fyrir hinn ´kristna´ siðaboðskap að nuddast inn í meðvitund okkar vesturlandabúa? Hin æ máttugri mannúð í vestrænum nútímaríkjum, sem vikið er að hér að ofan, er í sögulegu samhengi algjört nýjabrum; til dæmis er velferðarríkishugtakið ekki nema u.þ.b. einnar og hálfrar aldar gamalt fyrirbrigði - og almenn og kerfisbundin framkvæmd þess konsepts er ennþá yngri, jafnvel ekki nema rúmlega hálfrar aldar gömul.
Réttilega hefur verið á það bent að í Evrópu á miðöldum (og jafnvel lengi frameftir) var hugtakið ´náungaábyrgð´ svo til alfarið óþekkt - jafn óþekkt og það er í vanþróuðustu og harðneskjulegustu samfélögum vorra tíma.
(Og jafnvel í þróuðustu og sivilíseruðustu ríkjum nútíðar blasa hvarvetna við brotalamir í siðferðilegum efnum. Ég læt mér nægja að taka sem dæmi meðferð okkar vesturlandabúa á dýrum, sem er fullkomlega skammarleg. Það er galið þjóðfélag sem sér ekkert rangt við það að saklausum dýrum sé slátrað í milljónatali á hverju ári til að seðja hégómlega löngun fólks í fæði (þ.e. kjöt) sem enginn þarf á að halda og er jafnvel skaðlegt heilsunni miðað við flesta þá aðra matarkosti sem í boði eru. En hér læt ég staðar numið, enda ekki tóm að fjalla nánar um þetta efni í stuttri bloggfærslu).
Ef við lítum yfir sögu kristinnar kirkju þá kemur í ljós að lengst af hefur hún alls ekki boðað neitt í líkingu við þær hugsjónir sem velferðarríkið, jafnréttisbarátta kynjanna og aðrar slíkar mannúðar- og réttsýnistefnur nútímans byggjast á. Á heildina séð hefur boðskapur kirkjunnar þjóna í aldanna rás verið litaður af íhaldssemi, átoritetshyggju, sleikiskap við ´the powers that be´ í þjóðfélaginu, bannfæringu og ofsóknum og kúgun á öllum sem ekki eru ´réttþenkjandi´ og síðast en ekki síst karlrembu sem jaðrar við megna kvenfyrirlitningu (sbr. þá nöturlegu staðreynd að enn í dag meina langflestar kirkjudeildir kristindómsins konum að taka prestvígslu).
Svo er það auðvitað ómótmælanleg staðreynd að fólk þarf alls ekki að vera kristið til að fylgja hinum ´kristna´ siðaboðskap að málum. Allir sem eitthvað hafa lagt stund á samanburð trúarbragða vita að það er ekkert sér-kristið við þetta svokallaða ´kristna´ siðgæði; áþekkan siðaboðskap er að finna í öllum meiriháttar trúarbrögðum öðrum. Og það er vitaskuld ekkert sem aftrar fólki, sem er algjörlega trúlaust á nokkurn yfirskilvitlegan veruleika, frá því að standa fremst í fylkingu við að þrá og berjast fyrir betra og fegurra mannlífi.
Síðan er það augljós sannleikur að trúar- og siðferðissannfæring sprettur að innan en ekki að utan. Dýrlingi verður ekki þokað frá sinni helgibraut þótt í eyrum hans gjalli stækasti hatursáróður alla daga, og illmenni verður ekki hnikað frá sinni vonskuslóð þótt yfir því sé prédikað ´kristið´ siðgæði 365 daga ársins.
En líkast til eru hugleiðingar á borð við þær, sem hér hafa verið reifaðar, gagnslitlar er allt kemur til alls. Þegar upp er staðið skiptir miklu minna máli hvar við höfum verið heldur en hvert við erum að stefna - og því ættum við öll, kristin sem ókristin, að geta tekið höndum saman um að hraða enn frekar á hinni glæstu siglingu nútímasiðmenningar í átt til sífellt mannúðlegra, mildara, jafnara og réttsýnna samfélags.
Jæja, þetta er nóg röfl í bili. Ég bið alla lesendur vel að lifa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.