29.10.2011 | 16:37
Andlegt lýðræði
Mjög er ég á móti því að flokka mínar lífs- og trúarskoðanir í eitthvert geirneglt kerfi eða stefnu eða isma, en ef einhver héldi byssu upp að höfði mér og heimtaði að ég skilgreindi og stimplaði mína heimssýn þá myndi ég svara því til að ég væri ´spiritúall demókrat´.
Ekki er nóg með að ég trúi því að við manneskjurnar séum allar fyllilega jafnar innbyrðis, heldur er ég einnig þeirrar trúar að við mannskepnurnar séum algjörlega jafnar Guði - og meira en það: við séum allar fullkomlega eitt með Honum / Henni.
Allt sem er Guðs er líka okkar - við þurfum bara að átta okkur á því og leiða það í ljós!
(Lítilsháttar útúrdúr: Beindi Jesús Kristur ekki þessari spurningu til okkar mannanna: "Vitið þér ekki að þér eruð guðir?" - ummæli sem kirkjukristindómurinn virðist nánast frá fyrstu tíð hafa einsett sér að þaga í hel og þrástagast þess í stað á hinni lítt geðfelldu kenningu um ´syndugt eðli mannsins´og óbrúanlega fjarlægð manneskjunnar frá skapara sínum (´allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð´ osfrv. osfrv.) - og er ástæða þessarar slagsíðu efalaust upphaflega sú að kirkjunni er miklu hægara um vik að ríkja yfir skrílnum ef hægt er að berja þá dogmu inní höfuð pöbulsins að honum verði vegna ´synda´ sinna steypt beinustu leið niður til eilífrar vistar í víti nema hann þiggi hjálpræði (les: beygi sig undir drottinvald) það er einungis kirkjan og hennar þjónar ráða yfir. Útúrdúr lokið).
Hugmynd sú um Guð, er mörg trúarbrögð hamra sleitulítið á, að Hann (því Guð er ætíð karlkenndur í slíkum religjónum) sé alvalda konungur sem sitji á gullnum veldisstóli og ríki yfir alheiminum, kann að vera rétt frá vissum sjónarhóli séð.
En það er ekki sú Guðshugmynd sem mér hugnast best.
Heilshugar og heilshjarta tek ég undir með Bókinni um Veginn, þar sem segir um hina miklu Móður alls sem er (Taóið): "Ástúðlega elur hún önn fyrir öllu, en hirðir ekkert um að drottna yfir því."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.