31.7.2011 | 16:45
Hvað er jóga?
Bókstaflega þýðir Sanskrítarorðið ´jóga´ ´sameining´.
En þá vaknar eðlilega spurningin: sameining hvers við hvað?
Og ætla ég hér í örstuttu máli að útskýra það.
Hvert og eitt okkar er samsett úr ótal mismunandi þáttum, og nægir hér að nefna þá þrjá sem eru okkur kunnuglegir úr daglegu lífi: huga, tilfinningalíf og líkama (þættirnir eru reyndar miklu fleiri, en of langt og flókið mál væri að rekja það alltsaman í þessari örskömmu bloggfærslu).
Allir hafa þessir þættir sinn sjálfstæða vilja, sem oftar en ekki er á skjön við vilja allra hinna þáttanna.
Og eru þeir árekstrar orsök mestallrar ógæfu og ófarsældar okkar mannannna.
Markmiðið með jóga er að koma skikki á alla þessa þætti, binda enda á erjur þeirra og sameina þá í hlýðni og hollustu við hið guðdómlega innra með okkur.
Og með slíku jóga (=sameiningu) sköpum við himnaríki á jörðu - ein manneskja í einu.
Fræg eru þau ummæli hins mikla andlega meistara Sri Aurobindos að jóga væri ekkert nema hagnýt sálfræði, og er óefað að jóga geta allar manneskjur stundað, sama hvaða afstöðu þær hafa í trúar- og lífsviðhorfsmálum, rétt eins og allir geta notið góðs af tækniþekkingu óháð því hver þeirra persónulega lífsfílósófía er. Opinn og fordómalaus hugur er allt sem til þarf til að gerast jógi.
En hvað viðvíkur leiðbeiningum og ábendingum um hvernig skal farið að jógaástundun af því tagi sem hér hefur verið ýjað mjög stuttlega að get ég ekki gert betur en að benda lesendum á ritverk Sri Aurobindos, og væri líklega heppilegast að byrja á bókinni "The Integral Yoga" eða ritinu "Our Many Selves : Practical Yogic Psychology".
Namaste, kæri lesandi!
Athugasemdir
Þetta rímar mjög vel við Jungísk sálarfræði, en hann lagði einmitt ríka áherslu á það að sameina mismunandi hluta sálarlífsins með því að draga hina ómeðvituðu hluta þess fram í dagsljósið. Það er ekki tilviljun að orðin 'heilbrigði' og 'heilt' eru náskyld.
Þarfagreinir, 2.8.2011 kl. 11:37
Já, þótt ég víki ekki beinlínis orðum að því í færslunni þá eru langflestir þættirnir sem færslan ýjar að ómeðvitaðir. Með öðrum orðum þá þekkjum við aðeins yfirborð okkar verundar - og það ekki einu sinni ýkja vel . . .
Swami Karunananda, 2.8.2011 kl. 19:19
(Og úr því við erum í orðsifjapælingum þá er engin tilviljun að orðin ´heilbrigði´ og ´heilt´ eru náskyld orðinu ´heilagur". )
Swami Karunananda, 2.8.2011 kl. 20:01
(´Heilagur maður´ er semsé mannvera sem hefur náð fullkomnun í jóga (sem mætti þýða ´heildun´ eins vel og ´sameining´): þ.e. sem hefur náð að draga alla hulda vitundarþætti sína fram í dagsbirtuna og sameina þá, sem og hina er á yfirborðinu liggja, kringum einn kjarna : guðdómsneistann sem í okkur öllum býr, og býður þess eins að við gerum hann að miðpunkti allrar okkar tilveru, sem er hans réttmæti sess . . .).
Swami Karunananda, 2.8.2011 kl. 20:36
[Prentvillupúkinn á ferð! Þarna hefði að sjálfsögðu átt að standa ´bíður´ í stað ´býður´.]
Swami Karunananda, 2.8.2011 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.