Að hreinsa drulluna af demantinum

Það eru hryggileg örlög margra súblímra sanninda að vera herfilega rangtúlkuð af misvitrum múgnum.

Slíkt hefur til að mynda orðið hlutskipti karma- og endurholdgunarkenningarinnar í meðförum alþýðu á Indlandi.

Þannig er það algeng hjátrú meðal Indverja að fólk geti endurfæðst sem dýr eða einhver þaðanaf lægri lífsform.

Staðreyndin er sú að manneskjur geta aðeins endurfæðst sem manneskjur - aldrei sem lægri lífverur. Helgast það af því að þróunin getur aldrei farið aftur á bak; þegar lífið er einu sinni komið upp á hið mannlega þróunarstig verður ekki aftur snúið til óæðri organisma. Að halda öðru fram er eins og að segja að fiðrildið geti troðið sér aftur í púpuna eða kjúklingurinn skriðið á nýjan leik í eggið.

Önnur hjátrú sem útbreidd er meðal Indverja er sú að karma sé einhver óumbreytanleg fastnjörvuð forlög sem fólk getur ekkert hnikað til né frá.

Reyndin er sú að karma er algjör andhverfa forlaga. Karmakenningin hermir (rétt skilin) að örlög vor séu í vorum eigin höndum og hvergi annars staðar - það er enginn og ekkert annað sem skapar þau.

Og úr því örlög vor eru undir oss einum komin þá leiðir lógískt af því að vér getum skapað oss hver þau örlög sem vér kjósum. Vér höfum framtíðina algjörlega á voru valdi, og getum ævinlega breytt gangi ´forlaganna´ á hvern þann hátt er vér viljum.

Vér erum í dag það sem vér kusum í gær, og verðum á morgun það sem vér kjósum í dag.

Að skirrast við að hjálpa öðrum og lina þjáningar þeirra þegar maður hefur tök á því, undir því yfirskini að ekki skuli reyna að hrófla við járnhörðum forlögunum - eins og svo sorglega algengt er á Indlandi - er hrópleg heimska sem er í helberri andstöðu við hin háleitu og fögru sannindi um karma og endurholdgun.

Mergur málsins er þessi: Karmakenningin er í kjarna sínum ekkert annað en sambræðingur kenningarinnar um hinn frjálsa vilja mannsins, sem öll meiriháttar trúarbrögð halda á lofti, og kenningarinnar um orsök og afleiðingu, sem öll vísindi eru grundvölluð á.

Af því leiðir að samkvæmt karmateoríunni kjósum vér sjálf í hvernig heimi vér viljum lifa. Ef vér viljum skapa veröld þar sem afskiptaleysi gagnvart kröm annarra er lögmálið þá leyfist oss það. Ef oss fýsir hins vegar að skapa heim þar sem allir gera allt sem í sínu valdi stendur til að létta byrðar meðsystkina sinna þá er það oss einnig heimilt.

Bloggfærsla þessi hófst á umfjöllun um Indland og því er best að ljúka henni á sömu slóðum, enda er það fínt niðurlag á hugleiðingum þeim sem hér að ofan hafa verið reifaðar: Ef þjóð eins og Indverjar hefur í fortíðinni skapað sér fátæktar- og vanrækslukarma, þá er henni á hverju andartaki frjálst að snúa við blaðinu og byrja að skapa sér ríkidæmis- og umhyggjukarma.

Þótt maður hafi kjörið sér ákveðið hlutskipti í fortíðinni er engin ástæða til að halda því hlutskipti til streitu frekar en maður vill. Svo kveður karmateorí - sem og auðsæ óbrjáluð skynsemi.

Og mikið væri nú indælt ef hinn að mörgu leyti ágæti almenningur á Indlandi áttaði sig á þessari einföldu og í raun augljósu staðreynd, og léti af þeirri hörmulegu mistúlkun á karma- og endurholdgunarkenningunni sem orsakað hefur svo mikla félagslega eymd í því landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband