Þjóðleg gildi og eining mannkyns hvorttveggja lifi!

Það fer ekki framhjá jafnvel yfirborðslegasta athuganda að við lifum nú á fordæmislausu skeiði í mannkynssögunni.

Allir þeir múrar sem aðskilið hafa þjóðir og menningarheima jarðar frá alda öðli eru nú að hrynja til grunna.

Það er auðvitað útjöskuð tugga að tala um ´heimsþorpið´, en það er engu að síður nákvæmlega það sem er nú óðum að verða að veruleika. 

Og er það amk. í prinsippinu hið prýðilegasta mál.

Mig dreymir um heim þar sem allar þjóðir veraldar sameinast í virðingu fyrir lýðræði, borgarafrelsi og mannréttindum, en þar sem hver þjóð heldur jafnframt í sín þjóðlegu sérkenni. 

Því það væri verra af stað farið en heima setið ef heimsþorpsmyndunin leiddi til þess að allur munur milli þjóða þurrkaðist út í einhvers konar grunnri og banalli og einsleitri ´kóka-kóla mennningu,´ eins og ýmsar blikur eru á lofti að muni henda.

En eitt sterkasta og gleðiríkasta teikn þess að´kók-kúltúrinn´ ætli þrátt fyrir allt ekki að fletja allt út er tilkoma hinnar sk. ´heimstónlistar´ (þ.e. þjóðlegrar tónlistar frá öllum jarðarhornum), til mótvægis við andlausa einhæfa kommersíalíseraða alþjóðlega poppfroðuframleiðslu.

Fyrir þá lesendur bloggfærslu þessarar sem ekki hafa haft mikil kynni af heimstónlist en hafa áhuga á að fá nasasjón af henni get ég ekki gert betur en að benda þeim á stórkostlega geisladiskaröð sem kallast ´The Rough Guides.´ Hver diskur í téðri seríu tekur fyrir eitthvert eitt afbrigði heimsmúsíkurinnar, og gerir það á mjög breiðan og representatífan hátt. Og þar sem sérhver diskur er vel yfir klukkustund að lengd fá kaupendur helling af tónlist fyrir peninginn.

Endilega kíkið á ´The Rough Guides´ef ykkur fýsir að kafa ofan í hina gríðarlega gjöfulu, fjölskrúðugu og spennandi undraveröld heimstónlistarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband