Heiðrum alls lífs helgi

Við sem búum á vesturlöndum nútímans stærum okkur gjarnan af því að okkar sé mannúðlegt þjóðfélag.

Þetta er að ýmsu leyti rétt. En eitt er það svið í voru samfélagi þar sem mannúðin hefur að mestu leyti gleymst, en það er í meðhöndlun okkar á dýrunum.

Í mínum huga sést þetta einna skýrast á því, að ef einhver mannvitsbrekkan fær þá flugu í kollinn að fjör og fútt væri í því að æða um hálendið með frethólk og salla niður alsaklaus dýr sér til skemmtunar, þá hefur þjóðfélagið nákvæmlega ekkert út á þá svívirðilegu iðju að setja. "Hollt og gott áhugamál!" - það er viðkvæðið.

Að skýla sér bakvið eitthvert meint "veiðieðli," sem á að vera manneskjunni í blóð borið, er aum afsökun og bjánaleg. Yfir nítíuprósent fólks finna ekki fyrir minnsta votti af löngun til að plaffa niður aðrar lifandi verur (jafnvel þótt nefnt fólk gúteri af einhverjum skringilegum orsökum að aðrar mannverur gamni sér við það) - þannig að "veiðieðlið" verður á einföldum tölfræðilegum grunni að teljast afbrigðilegur og ónormall frávillingsháttur.

Og ef einhver bjálfinn er haldinn því (ó)eðli að vilja endilega drepa dýr fyrir engar aðrar sakir en að honum finnist það gaman, þá er hans staður ekki upp á hálendi að myrða, heldur upp í sófa hjá sálfræðingi að fá lækningu við ónáttúrunni.

Og svo er það kjötátið. Mikill meirihluti vesturlandabúa nútímans myndi aldrei geta drepið dýr eigin höndum, eða jafnvel horft upp á það að dýri sé slátrað án þess að fyllast klígju og viðbjóði. En samt gúffar þetta sama fólk í sig dýraholdi í nánast hverri einustu máltíð, vitandi þó vel að til þess að skaffa kjötið sem það smjattar á þarf að aflífa dýr!

 Já, mikill og undarlegur er tvískinningur mannanna.

En ég er (hóflega) bjartsýnn að eðlisfari, og trúi því einarðlega að allt standi til bóta í meðförum okkar á dýrunum, eins og á flestum öðrum sviðum. Og einn dýrðlegan dag mun sú stund upp renna að allt líf verður talið heilagt, en ekki bara sumt, og bannað verður með öllu að drepa okkar yngri systkini á þróunarbrautinni (þ.e. dýrin), líkt og nú er forboðið að sálga manneskjum (þ.e. ef ekki koma til gildar en afar sjaldgæfar ástæður eins og sjálfsvörn).

Ok ef ek verð enn ofar moldu mun ek kætast allmjök þann dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband