13.1.2010 | 15:18
Mæt er margbreytnin
Ósjaldan heyrir maður þá speki úr munni kristins fólks að þeirra tiltekna trú sé eina leiðin til Guðs.
Þetta viðhorf er í stuttu máli sagt út í hött. Sannleikurinn er sá að engin ein trúarbrögð í veröldinni henta öllum né svala innri þorsta allra - til þess er eðli mannanna of margslungið og misjafnt.
Fyrir suma er kristindómurinn heppilegasta trúin, en fyrir aðra ekki.
Við eigum bara að þakka af heilu hjarta fyrir margbreytni trúarbragðanna, því þeim mun fleiri og fjölbreyttari trúarbrögð sem til eru í heiminum, þeim mun meiri líkur eru á því að hver manneskja geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Og allra heppilegast væri ef hver manneskja myndi sníða sér sín eigin persónulegu og sérstæðu trúarbrögð, í samræmi við sinn karakter og eðlishneigðir - eins og reyndar þegar er raunin! Engar tvær kristnar manneskjur upplifa kristindóminn á nákvæmlega sama hátt, og slíkt hið sama má segja um fylgisfólk annarra religjóna.
Sérhver tiltekin trúarbrögð eru til vegna þess að einhvers staðar á jörðinni eru til mannverur sem þannig eru innréttaðar að þær laðast ómótstæðilega að þeirri heimsmynd og þeim siðaboðskap o.s.frv. sem sú religjón stendur fyrir. Þótt hatursmönnum einhverrar tiltekinnar religjónar tækist með ofbeldi og yfirgangssemi að afmá öll ytri teikn hennar, þá myndu þau teikn bara spretta upp aftur þegar kúguninni linnti, svo lengi sem fyrirfinndist fólk er í hjarta sínu þyrsti eftir kenningum og helgiathöfnum téðra trúarbragða.
Það er skýlaus krafa alls hugsandi fólks að í stað þess að standa í stöðugu, idjótísku og orkusóandi stríði hvert við annað eigi trúarbrögðin að styðja við bak hvert annars, í samræmi við þá morgunljósu kenningu að allar religjónir eru til af þörf og nauðsyn. Ef ekki væri í heiminum nein þörf né nokkur nauðsyn fyrir einhver tiltekin trúarbrögð, þá væru þau trúarbrögð ekki til - svo einfalt er það!
Fjallstindurinn er einn, en leiðirnar upp á hann eru jafn margar og klífendurnir eru margir. Látum þessa víðsýnu og dásamlegu hugsun smjúga inn í merginn í beinum vorum!
Og höfum það ætíð hugfast að hin raunverulega hildur stendur ekki milli trúarbragðanna innbyrðis, heldur milli trúarbragðanna (eða að minnsta kosti anda trúarbragðanna) annars vegar og mammonsdýrkunarinnar og eigingirninnar hins vegar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.